Í 2. sæti á HM í vélmennaforritun

Þrír fulltrúar Íslands náðu öðru sæti á HM í vélmennaforritun í Mexíkó fyrr í mánuðinum. Keppendur eru allir yngri en 18 ára og voru keppendur fleiri en þúsund talsins í alls 192 liðum. Keppt er í stuttum leikjum þar sem vélmennin safna stigum með því að leysa ýmsar þrautir. 

Þau Kormákur Atli Unnþórsson, Dýrleif Birna Sveinsdóttir og Flosi Torfason skipuðu liðið en Eyþór Máni Steinarsson sem er 19 ára gamall var liðsstjóri. Þá má ekki gleyma vélmenninu góða sem ber hið snjalla nafn: Þetta reddast. Það skilaði sér þó ekki til landsins með farangri liðsins og komst því ekki með í viðtal. Liðið hefur ekki náð að komast að því hvar það er niðurkomið en það hlýtur að reddast.

Á leið sinni í úrslitin bar liðið meðal annars sigurorð af Bandaríkjamönnum, Danmörku og Bretlandi. Þeir Kormákur og Flosi kepptu fyrir hönd Íslands í sömu keppni í fyrra og lentu þá í 107. sæti. Stefnan var upphaflega sett á að gera betur en það í ár. Árangurinn var því langt umfram væntingar eins og kemur fram í viðtalinu við krakkana í meðfylgjandi myndskeiði. Þar má einnig sjá myndefni frá keppninni sem er afar umfangsmikil.

Kormákur Atli Unnþórsson, Flosi Torfason og Dýrleif Birna Sveinsdóttir ásamt …
Kormákur Atli Unnþórsson, Flosi Torfason og Dýrleif Birna Sveinsdóttir ásamt Þetta reddast. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert