Risastór iPhone á leiðinni

iPhone X var fyrsti iPhone-inn til að losa sig við …
iPhone X var fyrsti iPhone-inn til að losa sig við home-takkann. Skjárinn fyllti nú upp í alla framhlið símans og því gat stærri skjár verið á minna tæki. Nú verður tækið stækkað og skjárinn þekur áfram framhlið þess. Það verður stærsti skjár á iPhone til þessa. AFP

Apple er að fara að gefa út risastóran snjallsíma, með stærsta skjánum til þessa. Fyrirtækið hyggst líka fleygja „home“-takkanum endanlega. Ýmislegt er komið í ljós um nýju iPhone-símana, sem verða líklega kynntir 12. september og koma þá út síðar í haust.

Það verða langlíklegast tveir símar eins og síðasta haust: önnur ódýrari gerð, sambærileg iPhone 8, og hin dýrari, arftaki iPhone X. Plus-gerðin af þeim dýrari mun skarta 6,5 tommu OLED-skjá. Til glöggvunar er það jafnstórt og aðrir iPhone Plus, nema skjárinn þekur allan símann, eins og á iPhone X. Sem sagt langstærsti iPhone-inn til þessa.

Bloomberg fær þessar upplýsingar frá ónefndum aðila. Sá kallar Apple-vertíðina í ár „S-ár“ og vísar með því til þess að í ár verður lítið um gagngera endurhönnun á símanum en módel síðasta árs betrumbætt í staðinn. Svo er skeytt S-i við nafnið á símanum, eins og tæknirisinn gerir að öllu jöfnu á tveggja ára fresti.

Takkar afþakkaðir

Tökkunum fækkar áfram. Enginn nýju símanna mun hafa svokallaðan „home“-hnapp sem færir notanda á heimasíðu símans. Skjárinn nemur í staðinn þar til gerðar handahreyfingar notandans (e. gestures) til að sinna þeim hlutverkum sem „home“-takkinn var vanur að gera. Ekki er heldur ólíklegt að fyrirtækið leitist líka við að losa sig við hljóðstillingartakkana og læsingartakkann.

Að vonum verður vinnsluminnið aukið á símunum, nýtt stýrikerfi iOS 12 tekið í gagnið og myndavélarnar uppfærðar. Til marks um betri myndavélar er hverfandi „home“-takkinn: án hans verða myndavélarnar framan á símanum að kunna á andlit fyrir „Face ID“, eða andlitsauðkenni.

Fleiri, ódýrari og litríkari símar

Apple leggur áherslu á að sprengja niður verðið á ódýrari símunum en margfalda gæði þeirra dýrari. Gæðamunur verður í vélbúnaði símans, X-arftakinn mun vera úr vandaðra efni, hafa betri skjá og hann verður í boði í færri litum. Ódýrari gerðin verður sennilega í boði í nokkrum litum, gulllitaður, blár og sennilega rauður, svo dæmi séu nefnd.

Dýrari gerðin mun búin OLED-skjá eins og iPhone X og verður því áfram talsverður verðmunur á. Ódýrari gerðin mun þvert á móti vera búin LCD-skjá áfram, sem er verri skjár í öllum meginatriðum en mun ódýrari í framleiðslu. Að vísu má ætla að hinn almenni notandi finni ekki mun á þessum tveimur skjágerðum en OLED er samt ákjósanlegri, því hann er ekki jafnorkufrekur.

Tim Cook, forstjóri Apple, á netráðstefnu í Kína um árið. …
Tim Cook, forstjóri Apple, á netráðstefnu í Kína um árið. Hann er gagnrýndur af sumum fyrir að taka ekki áhættu með hönnun símans. AFP

Snjallsímar seljast minna

Á síðasta ársfjórðungi 2017 minnkaði sala á snjallsímum í fyrsta sinn síðan hin eiginlega snjallsímabylting hófst. Apple er að bregðast við breyttum markaðsaðstæðum. Þeir vilja að sem flestir eigi Apple-síma, þannig að þeir geti hagnast á sem mestri þjónustu inni í sjálfum símanum, eins og tónlist og smáforritum.

Liður í þessari viðleitni eru þessir ódýrari símar. Þeir standast ekki sömu gæðakröfur og flaggskipið, X-inn, en virka vel og henta þeim sem þrá ekki það nýjasta og flottasta. Hinir dýrari verða á móti sífellt dýrari. Þó finnst sumum vanta upp á sköpunargleðina og þykir lítil áhætta tekin ef nýsköpunin er ekki meiri en hún virðist ætla að verða.

Þá kemur Apple sennilega til með að selja iPhone 7 mjög ódýrt þegar nýju símarnir koma á markað. Nýja flaggskipið verður sennilega álíka dýrt og iPhone X er núna og Plus-gerð þess má ætla að verði langdýrasti iPhone-inn hingað til.

Nördar bíða spenntir

Það er mikil eftirvænting eftir kynningu Apple á vörulista ársins, eins og vill gerast snemma á haustin. Ef að líkum lætur verður hún haldin í höfuðstöðvum tæknirisans í Cupertino í Kaliforníu 12. september næstkomandi.

Ævinlega ríkir sami leyndardómur yfir því sem koma skal og það eru margar kenningar á sveimi um hvað stendur til að afhjúpa á viðburði þessum. Ný AirPods, þráðlaus heyrnartól, nýtt Apple Watch og nýir iPadar eru meðal þess sem nefnt hefur verið í tengslum við viðburðinn.

Apple gerir allt sem það getur til að halda mikilvægustu tilkynningunum leyndum, en sá hængur er á að fyrirtækið þarf að framleiða óheyrilegan fjölda síma þegar líður að fyrsta söludegi. Að framleiðslunni kemur fjöldi þriðju aðila og þá er ekki nema von að ýmis smáatriði kvisist út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert