Loftslagsmál stærsta áskorun mannkynsins

Við höfum ekki tíma til að bíða með aðgerðir í ...
Við höfum ekki tíma til að bíða með aðgerðir í loftslagsmálum, segja skipuleggjendur Loftslagsgöngunnar. mbl.is/Hari

„Ég held að við þurfum bara að gera allt sem við getum til að draga úr losun á vegum Íslands og vera fyrirmyndir,“ segir Þorbjörg Sandra Bakke, einn skipuleggjenda Loftslagsgöngunnar, sem fór fram í miðborg Reykjavíkur í gær.

Nokkur hundruð manns gengu af stað frá Hallgrímskirkju í gær, en krafa göngunnar í ár var sú að tafarlaust yrði gripið til árangursríkra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsgangan er alþjóðlegt fyrirbæri og viðlíka göngur fóru fram víða um heim í gær.

Þorbjörg Sandra Bakke við upphaf göngunnar við Hallgrímskirkju í gær.
Þorbjörg Sandra Bakke við upphaf göngunnar við Hallgrímskirkju í gær. mbl.is/Hari

„Ríkisstjórnin verður að draga vagninn og greiða götuna fyrir sjálfbæru samfélagi. Að öðrum kosti mun sveitarfélögum, atvinnulífi, félagasamtökum og einstaklingum reynast erfitt að leggja sitt af mörkum,“ segir í yfirlýsingu frá aðstandendum göngunnar.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra tók þátt í göngunni og segir Þorbjörg að hún hafi séð fleiri stjórnmálamenn leggja málstaðnum lið með þátttöku í göngunni.

Nokkur hundruð manns tóku þátt í göngunni í gær.
Nokkur hundruð manns tóku þátt í göngunni í gær. mbl.is/Hari

„En það voru ekki margir og það veldur mér smá áhyggjum, þó að ganga sé nú bara ganga, að pólitíkusar skuli ekki taka þetta fastari tökum. Þetta er stærsta áskorunin sem mannkynið stendur frammi fyrir og núna er góður tími til að bregðast við af alvöru, núna eða bara alveg á næstunni, annars erum við orðin of sein,“ segir Þorbjörg en bætir við að hún sé spennt að sjá aðgerðaáætlunina sem ríkistjórnin ætlar að kynna á morgun.

Þorbjörg segir að Íslendingar ættu að gera allt sem þeir geti til þess að draga úr losun og vera fyrirmyndir. Hún segir að við höfum tækifæri til þess að skara fram úr á heimsvísu, þar sem við erum til dæmis með hreina orku.

„Við mættum leggja meiri áherslu á að endurheimta votlendi, setja kostnað á mengandi hegðun og styrkja sjálfbærar aðgerðir til að auðvelda fólki að velja umhverfisvænan lífsstíl. Að auki mættu lífeyrissjóðirnir okkar fjárfesta í sjálfbærum aðgerðum frekar en að fjárfesta í einhverju óumhverfisvænu.“

Kjötát ætti að vera spari

Í göngunni í gær var maður með skilti þar sem fullyrt var að þeir sem borðuðu kjöt gætu ekki kallað sig umhverfisverndarsinna. Framleiðsla dýraafurða hefur margvísleg skaðleg áhrif á umhverfið, en Þorbjörg segist ekki viss um að fólk átti sig almennt á því.

Getur þú kallað sjálfan þig umhverfisverndarsinna ef þú borðar kjöt? ...
Getur þú kallað sjálfan þig umhverfisverndarsinna ef þú borðar kjöt? Þessi maður segir nei. mbl.is/Hari

„Það er stærra skref að hætta að borða kjöt og minnka neyslu á dýraafurðum en að hætta að keyra bíl, ef þú vilt vera loftslagsvænn. Ég held samt að fólk megi alveg kalla sig umhverfisverndarsinna þrátt fyrir að það borði kjöt, en það þarf samt að vera meðvitað um áhrifin,“ segir Þorbjörg og bætir við að kjötát ætti að vera „spari“.

„Í raun ættum við að vera meðvituð um alla neyslu, því það er alveg hægt að vera óumhverfisvænn þótt maður borði ekki dýraafurðir. Í þessu hjálpar ef yfirvöld setja mannafla í að rannsaka hvaða leiðir eru umhverfisvænstar og setja leikreglur og hvata sem miða að því að skapa hið besta mögulega og umhverfisvænsta samfélag í samvinnu við almenning,“ segir Þorbjörg.

„Með mörg af þessum umhverfismálum eru líka fleiri góðar ástæður en loftslagið til að gera vel. Það er gott að hjóla og gott að labba meira fyrir heilsuna, gott að borða meira grænmetisfæði vegna dýravelferðar og gott að vera nægjusamur,“ segir Þorbjörg, sem telur það að endurskoða lífsstíl sinn með umhverfisvitund í huga geta verið tækifæri til að bæta eigið líf en gefa á sama tíma framtíðarkynslóðum tækifæri til að njóta gæða jarðarinnar.

mbl.is/Hari
mbl.is
EIGUM ALLSKONAR STIGA Á LAGER
Sjá fjölmargar gerðir á: http://www.sogem-sa.com/stairs Sími 615 1750 Sjá einni...
Vatnshitarar fyrir sumarhús.
Ýmsar gerðir af vatnshiturum 3300w til 21000w fyrir sumarhús, þessi búnaður er f...
Skíði á Akureyri - Dalvík ?
Til leigu lítið sumarhús, svefnpláss fyrir 2-4, WiFi- ljósleiðari, útisturta, 10...
110 fm sumarhús á Suðurlandi..
Sumarhús í Biskupstungum til sölu. Eru 2 hús, annað fullbúið og hitt með þrjú sé...