Fá klukkutíma til að fjarlægja öfgaefni

Netfyrirtækin Google, Twitter og Facebook fá klukkutíma til að fjarlægja …
Netfyrirtækin Google, Twitter og Facebook fá klukkutíma til að fjarlægja öfgaefni af miðlum sínum vilji þau forðast háa sekt. AFP

Google, Facebook og Twitter verða að fjarlægja öfgaefni af miðlum sínum innan klukkustundar frá því að það er tilkynnt, annars eiga fyrirtækin yfir höfði sér háa sekt samkvæmt tillögu ESB. Þetta kom fram í árlegu ávarpi Jean-Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í Evrópuþinginu.

Sagði Juncker klukkutíma vera „ótvíræðan tímaramma“.

ESB gaf netfyrirtækjunum þriggja mánaða frest í mars á þessu ári til að sýna að þau væru nú fljótari að fjarlægja færslur með öfgaefni. Eftirlitsstofnanir ESB segja of lítið hins vegar vera gert.

Merki yfirvöld efni sem svo að það hvetji til eða styðji öfgastefnu þá verður að fjarlægja efnið af netinu innan klukkustundar samkvæmt tillögu ESB. Bregðist netfyrirtækin ekki við innan þess tíma eiga þau yfir höfði sér sektargreiðslu sem nemur allt að 4% af árlegri veltu þeirra.

BBC segir tillöguna þurfa stuðning aðildarríkja ESB, sem og Evrópuþingsins, eigi hún að verða samþykkt. Þá verði netfyrirtæki einnig að þróa nýjar leiðir til að fylgjast með því efni sem birt er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert