Rannsaka dularfullan dauðdaga ljóna

Asísk ljón eru í kringum 500 og eru heimkynni þeirra …
Asísk ljón eru í kringum 500 og eru heimkynni þeirra á átta mismundi svæðum á Indlandi. AFP

Dularfullur dauðdagi asískra ljóna (panthera leo persica) á verndarsvæði í Girskóginum í Gujarat-fylki á vesturhluta Indlands hefur vakið mikla furðu yfirvalda. Á síðustu tveimur vikum hafa ellefu ljón drepist í skóginum og hafa skógræktaryfirvöld á Indlandi hafið rannsókn á málinu.

Dánarorsök er ókunn en yfirvöld telja að ljónin hafi verið drepin af hópi ljóna í baráttu um yfirráðasvæði. Þrjú ljónanna sem voru drepin voru ljónsungar. BBC hefur eftir skógarverði í Girskógi að um náttúrulega hegðun ljónanna sé að ræða.

Heimkynni ljóna eru aðallega í Afríku, sunnan Sahara-eyðimerkurinnar, en síðustu asísku ljónin lifa í Girskógi og samkvæmt upplýsingum á Vísindavefnum er það eina svæðið þar sem ljón og tígrisdýr deila heimkynnum.

Asísk ljón voru í bráðri útrýmingarhættu frá 2000 en árið 2008 tók stofninn við sér en er enn á lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Asísk ljón eru í kringum 500 og eru heimkynni þeirra á átta mismundi svæðum á Indlandi. Um 300 lifa á verndarsvæðum en 200 í villtri náttúrunni. 

Yfirvöld skoða einnig hvort vírussýking, svokallaður CDV-vírus, sem berst með hundum hafi mögulega orðið ljónunum að bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert