Fækka prófum skólabarna í Singapúr

AFP

Yfirvöld í Singapúr hafa tekið ákvörðun um að fækka prófum í skólum í borgríkinu á næsta ári til þess að draga úr álagi á nemendur sem eru þjakaðir af álagi og kvíða. Gríðarleg áhersla hefur verið lögð á háar einkunnir skólanemenda í Singapúr og sést meðal annars á stöðu þeirra í Pisa-könnunum.

Nemendur í Singapúr eru yfirleitt alltaf hæstir í samræmdum prófum en undanfarið hefur borið meira á áhyggjum af líðan barna í ríkinu. Ekki síst fyrir þær sakir að áherslan hefur meira og minna öll verið á nám sem skilar háum einkunnum í stað þess að virkja skapandi hugsun.

Frá árinu 2019 verða ekki lögð próf fyrir nemendur í tveimur yngstu árgöngunum í grunnskóla, það er 6-8 ára. Jafnframt verður hætt að leggja próf fyrir nemendur í efri bekkjum grunnskóla um mitt skólaár líkt og hingað til hefur verið gert.

Menntamálaráðherra Singapúr, Ong Ye Kung, segir að kennarar séu á hraða hraðlesta og tímabært að slaka aðeins á. 

Samfara þessu verða nemendur ekki upplýstir um stöðu sína í bekknum, það er hvar þeir raðast einkunnalega, og er það gert til þess að auka áhersluna á að læra í stað þess að keppa við samnemendur. 

Mikilvægt er að börn fái að leika sér.
Mikilvægt er að börn fái að leika sér. AFP

Mjög algengt er að börn í Singapúr séu send í rándýra einkaskóla að skóladegi loknum við hefðbundna skóla til að auka líkur á háum einkunnum. Þetta þýðir að þau fá nánast aldrei tækifæri til þess að leika sér. Eins er algeng sjón að foreldrar sitji í neðanjarðarlestinni með börnum sínum og læri.

Margir fagna þessari breytingu og segja að þetta geti þýtt að börn í Singapúr fái að njóta þess að vera börn og vonandi sjái foreldrar gildi þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert