Grúskar í gömlum leikjum

Egill býður vinum sínum reglulega í heimsókn til að spila …
Egill býður vinum sínum reglulega í heimsókn til að spila leiki úr safninu. mbl.is/Eggert
Við erum nokkrir sem erum í þessu og ég er ábyggilega ekki sá sem á mest þótt ég komist samt kannski þokkalega nálægt því. Ég er samt ekki í neinni samkeppni,“ segir Egill Helgason, sem safnar gömlum leikjum og leikjatölvum. Hann á í dag 23 leikjatölvur og tæplega 600 leiki, ásamt fjöldamörgum fylgihlutum.
„Ég byrjaði á þessu fyrir nokkrum árum þegar ég flutti með eiginkonu minni til Japan. Þar datt mér í hug að fyrst ég yrði stundum einn og ekki með öllum vinum mínum þá gæti verið gaman að eignast Super Nintendo, en það er leikjatölva sem ég átti aldrei í æsku.“
Egill hefur í dag sankað að sér tæplega 600 leikjum …
Egill hefur í dag sankað að sér tæplega 600 leikjum í safn sitt, sem stækkar enn. mbl.is/Eggert

Egill ólst sjálfur upp með Nintendo NES-vélinni (sem margir Íslendingar þekkja eflaust sem „gömlu Nintendo“) sem bróðir hans fékk í jólagjöf þegar Egill var eins árs. „Ég byrjaði afskaplega ungur að spila á Nintendo vélinni og fékk svo Playstation síðar meir þegar hún var gefin út.“ segir Egill. „Það er bara eitthvað við þessa gömlu leiki sem er svo heillandi, ákveðinn einfaldleiki. Þeir halda heldur ekki jafn mikið í höndina á þér eins og leikir í dag, og eru ekki hræddir við að vera pínu ósanngjarnir. Þar er meiri áhersla lögð á spilunina og minna á óþarfa aukahluti.“

Harkið er heillandi

„Ég nálgast tölvurnar og leikina hvar sem ég kemst í þær, bæði á netinu og í persónu,“ segir Egill. „Ég leita mikið á netinu, t.d á bland.is, Amazon og á íslenskum Facebook-grúppum. Ég reyni að komast hjá því að nota eBay, því þótt það sé hægt að finna nánast allt þar er maður oftar en ekki að fara að borga morðfjár fyrir vikið. Hluti af sjarmanum við þetta áhugamál er samt að finna hlutina, stundum nánast á einhverri skransölu, og gera góðan díl.“
Í dag á Egill 23 leikjatölvur. Nýjasta vélin í safni …
Í dag á Egill 23 leikjatölvur. Nýjasta vélin í safni hans er Sega Dreamcast. mbl.is/Eggert

Egill heimsækir Japan reglulega til að heimsækja fjölskyldu eiginkonu sinnar, Nagisu Hirose. „Þegar ég fer út grúska ég í búðunum þar. Þar er rosalega mikið úrval, bæði í sérverslunum og búðum sem selja notaða hluti.“ segir Egill. „Þar er líka hægt að nálgast hluti sem voru ekki gefnir út í Evrópu. Svo hefur líka komið fyrir að maður finni gersemar í Góða hirðinum hérna heima.“

Betra að spila gömlu leikina á gamlar tölvur

„Það eru einhverjar tölvur sem hafa nánast aðeins verið gefnar út í Japan, og svo aðrar sem voru ekki vinsælar eða ófáanlegar á Íslandi. Ég uppgötvaði til dæmis PC Engine í Japan, sem var magnað. Leikjatölva sem margir vita ekki af en var í samkeppni við Nintendo og Sega á sínum tíma. Það var heilt bókasafn af leikjum sem ég hafði ekki heyrt af áður.“

Í dag er hægt að nálgast stóran hluta af þessum gömlu leikjum á nýrri tölvum, en Agli þykir það ekki jafn skemmtilegt. „Það er ekkert eins og að halda á upprunalegu fjarstýringunum. Upplifunin er betri.“ segir Egill.

NES (Nintendo Entertainment System) er fyrsta tölvan sem Egill átti …
NES (Nintendo Entertainment System) er fyrsta tölvan sem Egill átti og segir hann hana vera í uppáhaldi. mbl.is/Eggert

„Það er skemmtilegt að fá gesti í heimsókn og spila saman, og þá er gaman að eiga svona mikið úrval.“ Meðal leikjaraða sem Egill heldur upp á eru Castlevania, Super Mario, Zelda og Final Fantasy. „Það er gaman að spila gamla leiki en ég hef líka mikið gaman af nýrri leikjum. Svo er sterk indísena sem heldur retróstemmningunni lifandi.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert