Fá Nóbelsverðlaun fyrir tímamótauppgötvun

Tveir vísindamenn, sem uppgötvuðu hvernig hægt er að nota ónæmiskerfi mannsins til að berjast gegn krabbameini, fá Nóbelsverðlaunin í læknavísindum í ár. 

Uppgötvun Bandaríkjamannsins James P. Allison og Japanans Tasuku Honjo hefur orðið til þess að bæta meðferðir við lífshættulegu húðkrabbameini. Í rökstuðningi sænsku Nóbelsakademíunnar segir að uppgötvunin hafi valdið straumhvörfum í krabbameinsmeðferð. Sérfræðingar segja meðferðina hafa reynst „ótrúlega áhrifarík“.

Allison er prófessor við Háskólann í Texas og Honjo er prófessor við Kyoto-háskóla. Þeir munu deila með sér verðlaunafénu sem er níu milljónir sænskra króna eða rúmlega 100 milljónir íslenskar.

Í frétt BBC um málið segir að ónæmiskerfi mannsins sé hannað til þess að varna sjúkdómum en það er einnig þannig úr garði gert að það ræðst ekki gegn eigin vefjum líkamans. Sum krabbamein notfæra sér þessar glufur í varnarkerfinu. 

Allison og Honjo fundu leiðir til að gera það að verkum að ónæmisfrumurnar ráðist á æxli. Þetta var gert með því að þagga niður í, ef svo má að orði komast, próteinum sem varna líkamanum að gera einmitt þetta. 

Tasuku Honjo segist ætla að halda rannsóknum sínum áfram og finna leiðir til að bæta eins og hann getur meðferð krabbameinssjúklinga. „Ég vil halda rannsóknum mínum áfram svo að ónæmismeðferð muni bjarga fleiri sjúklingum en nokkru sinni.“

Tasuku Honjo (t.v.) og James P. Allison fá Nóbelsverðlaunin í …
Tasuku Honjo (t.v.) og James P. Allison fá Nóbelsverðlaunin í læknavísindum í ár. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert