Netlausir í hálfan sólarhring

Viðskiptavinir Hringiðunnar voru netlausir í um hálfan sólarhring í nótt og í dag vegna rafmagnsleysis í Tæknigarði Háskóla Íslands, þar sem netsmiðjur fyrirtækisins eru hýstar. Með vararafstöðvum hefur tekist að koma netþjónustu aftur á hjá flestum, að sögn Guðmundar Unnsteinssonar framkvæmdastjóra. Starfsemi í Tæknigarði liggur enn niðri vegna rafmagnsleysis.

Að sögn Guðmundar datt netþjónusta fyrirtækisins niður í nótt og var kerfisstjóri Hringiðunnar fljótur á staðinn. Þar kom í ljós að slegið hafði út í nokkrum byggingum Háskóla Íslands á svæðinu. Starfsmönnum HÍ og Orkuveitu Reykjavíkur tókst að slá inn rafmagni í flestar bygginganna, en samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ er enn rafmagnslaust í Tæknigarði og hluta VR-III.

„Við erum búin að tryggja okkur til bráðabirgða í gegnum vararafstöðvar. Nettenging er komin upp hjá flestum notendum, en einhver vefþjónusta liggur enn niðri og ekki allt komið í gang enn þá,“ segir Guðmundur.

Guðmundur biður viðskiptavini Hringiðunnar velvirðingar, en segir fyrirtækið algerlega undir Háskóla Íslands og Veitum komið hvað varðar viðgerð. „Þetta er ekkert sem gerðist inni hjá okkur, heldur er þetta í heimtauginni inn í húsið sem bilunin á sér stað.“

Starfsemi í Tæknigarði Háskóla Íslands liggur enn niðri vegna rafmagnsleysis.
Starfsemi í Tæknigarði Háskóla Íslands liggur enn niðri vegna rafmagnsleysis. Ljósmynd/Sverrir Vilhelmsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert