Sveppir gætu bjargað býflugunum

Býflugur eiga erfitt uppdráttar þessi misserin. Ýmsu er sagt um ...
Býflugur eiga erfitt uppdráttar þessi misserin. Ýmsu er sagt um að kenna, s.s. mítlafaraldri og óhóflegri notkun skordýraeiturs. AFP

Veirueyðandi efni í sveppum gæti komið býflugum heimsins til bjargar en útbreiddur býflugnadauði hefur valdið vísindamönnum miklum áhyggjum í nokkur ár. Það var smásalinn Paul Stamets sem fyrstur vakti athygli á mögulegri lækningu fyrir býflugur í sveppum. Mögulega verður hið virka efni notað á næsta ári í tilraun til að bjarga býflugunum.

Stamets greindi frá hugmynd sinni í Tuscaloosa News um helgina og hafa margir fjölmiðlar fjallað um hana síðan þá. Hann segist oft hafa séð býflugur reyna að næra sig á sveppunum hans. Hann segist hafa séð þær dreypa á dropum sem komu frá þeim. Hann fór svo að velta því fyrir sér hvort flugurnar væru að sækja í lækningu, ekki næringu. 

Í frétt Newsweek um málið segir að hrun í býflugnastofninum megi m.a. rekja til mítlafaraldurs sem geisað hafi frá því um 1980.

Varroa-mítlarnir geta sýkt býflugur með vírusum og þar með lagt heilu lendur þeirra í eyði. Bent hefur verið á að um þriðjungur allrar fæðuframleiðslu heimsins byggi á tilveru býflugna.

Steve Sheppard, prófessor við Washington-háskóla, hefur oftsinnis gert tilraunir með framúrstefnulegar aðferðir við að bjarga býflugnastofninum. Hann sá tækifæri í kenningu Stamets og vildi prófa hana.

Sheppard og teymi hans gerðu tilraunir á tveimur hópum býflugna. Báðir hóparnir höfðu komist í snertingu við varroa-mítlana. Annar hópurinn fékk sykur að éta með bætiefni úr sveppi. Hinn fékk aðeins sykur. Niðurstaðan var góð: Bætiefnið eyddi veikindum sem fylgdu sumum stofnum veirunnar.

Stamets hefur hannað búnað sem nær hinu læknandi efni úr sveppunum og vonast til að hann komi á markað árið 2019.

mbl.is