Loka Google+ í kjölfar kerfisvillu

AFP

Google ætlar að loka samfélagsmiðli fyrirtækisins, sem snýr að neytendum, eftir að upplýst var um kerfisvillu sem gerði það að verkum að einkaupplýsingar notenda voru gerðar opinberar hverjum sem er.

Tæknifyrirtækið tilkynnti í gærkvöldi að Google+ verði lokað enda hafi miðillinn ekki náð þeim vinsældum sem stefnt var að. Google setti samfélagsmiðilinn á laggirnar árið 2011 og var honum stefnt til höfuðs Facebook.

Talsmaður Google vísar til verulegra áskorana í sköpun og viðhaldi Google+ svo hægt sé að vera samkeppnisfær á þessum markaði. Það sé ein ástæða þess að ákveðið var að loka miðlinum.

Við öryggiseftirlit í mars kom í ljós að kerfisvilla hafði veitt smáforritum utanaðkomandi aðila aðgengi að einkaupplýsingum notenda Google+. Upplýsingum sem ekki átti að birta opinberlega. 

Google gat ekki staðfest um hvaða aðganga væri að ræða en kerfisfræðingar töldu að þeir væru allt að 500 þúsund talsins. Í tilkynningu frá Google kemur fram að ekkert bendi til þess að nokkur forritari hafi gert sér grein fyrir kerfisvillunni né heldur að nokkur hafi misnotað þessar upplýsingar. 

Um var að ræða persónulegar upplýsingar eins og nafn, aldur, kyn stöðu og netfang. Engar persónulegar upplýsingar eins og skilaboð, póstar eða símanúmer voru sjáanlegar öðrum en eigendum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert