Standandi „standa sig betur“

Staðið í vinnunni.
Staðið í vinnunni. mbl.is/Jón Pétur

Ný rannsókn gefur til kynna að það geti aukið afköst starfsmanna að notast við skrifborð sem hægt er að hækka og lækka í vinnutímanum.

Í rannsókninni voru starfsmenn bresku heilbrigðisþjónustunnar látnir fá ný skrifborð og þeir beðnir um að standa við þau í ákveðinn tíma á hverjum degi.

Ári síðar kom í ljós að sá tími sem þeir sátu við skrifborðin minnkaði um rúmlega klukkustund á dag, miðað við samstarfsmenn þeirra.

Starfsmennirnir sem sátu minna og stóðu í staðinn við skrifborðin sín sögðu einnig að þeir væru síður þreyttir og væru tilbúnari en áður í að sinna starfinu, að því er BBC greindi frá. 

77 fengu að standa en 69 ekki

Rannsóknin var unnin af vísindamönnum við Loughborough-háskóla og sérfræðingum frá Leicester. Alls voru 146 heilbrigðisstarfsmenn sem venjulega sitja við skrifborð allan daginn fengnir til þátttöku.

Sjötíu og sjö þeirra voru látnir fá skrifborð þar sem hægt var að stilla hæðina á meðan hinir 69 sátu áfram við venjuleg skrifborð.

Í upphafi rannsóknarinnar sátu starfsmennirnir að meðaltali 9,7 klukkustundir á dag við skrifborðin.

Á meðan á rannsókninni stóð dróst tíminn sem menn sátu við skrifborðin saman um 50,62 mínútur á dag eftir fyrstu þrjá mánuðina, 64,4 mínútur á dag eftir sex mánuði og 82,39 mínútur eftir eitt ár. Starfsmennirnir fundu einnig síður fyrir stoðkerfisvandamálum, samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar sem var birt í British Medical Journal.

Sögðu lífsgæði sín hafa batnað

Samkvæmt spurningalista sem þátttakendurnir fylltu út sýndu starfsmennirnir sem gátu staðið við borðin sín einnig minni einkenni kvíða og sögðu lífsgæði sín hafa batnað. Engar teljanlegar breytingar fundust aftur á móti á starfsánægju, hugarfari eða fjölda veikindaleyfa.

Læknisfræðilegar rannsóknir hafa í gegnum tíðina sýnt að það getur skaðað heilsuna að sitja mikið. Mögulega getur það skaðað hjarta- og æðakerfið og aukið hættuna á að fá sykursýki.

Í skoðanakönnun bresku hjartasamtakanna árið 2015 kom í ljós að meðalmanneskjan sat í næstum alla þá níu klukkutíma sem hún eyddi á skrifstofunni sinni.

Svíar og Danir standa sig í stykkinu

Þannig er málum þó ekki háttað alls staðar. Til dæmis er algengt að fólk standi í einhvern tíma á dag við skrifborðin sín í Svíþjóð og árið 2014 voru atvinnurekendur í Danmörku skyldaðir til að bjóða starfsmönnum sínum upp á borð sem bæði er hægt að standa og sitja við.

Þeir sem stóðu á bak við rannsóknina í Bretlandi segja aftur á móti að þörf sé á meiri rannsóknum til að meta langtímaáhrifin sem fást af því að standa í vinnunni.

mbl.is
Skrifstofuhúsnæði Bolholti 4
Til leigu er skrifstofurými, alls um 110 fermetrar, í austurenda á 5. og efstu ...
Nudd Nudd Nudd
Whole body massage S. 7660348,Alena...
Klettar - Heilsárshús - 80fm + 49fm svefnloft
Splunkunýtt! Klettar - Heilsárshús Klettar er heilsárshús sem flestir ættu að...
HRINGSTIGAR _ HRINGSTIGAR
Hringstigar, úti sem inni. Þvermál 120, 130, 140, 150, 160, 170 cm og sérsmíði í...