Árásin náði til 29 milljóna notenda

AFP

Forsvarsmenn samfélagsmiðilsins Facebook greindu frá því í dag að netglæpamönnum hefði tekist að komast í upplýsingar 29 milljóna notenda miðilsins í síðasta mánuði. Áður hafði komið fram hjá fyrirtækinu að árásin hefði náð til 50 milljóna notenda.

„Við vitum núna að færri notendur urðu fyrir barðinu á þessu en við töldum upphaflega,“ er haft eftir Guy Rosen, aðstoðarframkvæmdastjóra framleiðsludeildar Facebook, í frétt AFP. Netglæpamennirnir, sem ekki er vitað hverjir eru, komust í persónulegar upplýsingar um 15 milljóna notenda, það er nöfn þeirra, símanúmer og netföng.

Hins vegar hafi árásin hugsanlega haft enn alvarlegri afleiðingar fyrir aðrar 14 milljónir notenda. Þar hafi verið um að ræða enn persónulegri upplýsingar eins og kyn viðkomandi, trúarbrögð, heimabæ, fæðingardag og staði sem viðkomandi hafði heimsótt.

Facebook segir að sérfræðingar fyrirtækisins hafi tekið eftir gallanum sem netglæpamennirnir hefðu nýtt sér 25. september og lokað hafi verið fyrir misnotkun hans tveimur dögum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert