Netþrjótar náðu til 2.500 Íslendinga

Upphaflega var talið að bresturinn hefði náð til 50 milljóna …
Upphaflega var talið að bresturinn hefði náð til 50 milljóna notenda, en við nánari skoðun kom í ljós að fórnarlömb voru 30 milljónir manns. AFP

Öryggisbrestur sem varð hjá Facebook í síðasta mánuði hafði áhrif á tæplega 2.500 notendur samfélagsmiðilsins á Íslandi. Upphaflega var talið að bresturinn hefði náð til 50 milljóna notenda, en við nánari skoðun kom í ljós að fórnarlömb voru 30 milljónir manns. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Persónuvernd.

Þar segir að umræddur öryggisbrestur hafi orðið til þess að óviðkomandi aðilum tókst að komast yfir ýmsar upplýsingar um notendur, svo sem netföng þeirra og símanúmer. Í einhverjum tilfellum urðu aðrar og ítarlegri upplýsingar á borð við fæðingardag og staðsetningu aðgengilegar. Samkvæmt Facebook komust netþrjótarnir ekki yfir lykilorð eða greiðsluupplýsingar notenda.

Persónuvernd tekur þátt í rannsókninni ásamt persónuverndarstofnunum annarra EES-ríkja, en þar sem Facebook hefur höfuðstöðvar á Írlandi telst írska persónuverndarstofnunin vera forystustjórnvald við rannsókn málsins.

Notendur Facebook geta farið á þessa vefsíðu til að sjá hvort öryggisbresturinn hafði áhrif á þá, sem og upplýsingar um rétt viðbrögð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert