Hlýnun sjávar verulega vanmetin

Vísindamenn telja sig nú geta fylgst nokkuð nákvæmlega með hitastigi …
Vísindamenn telja sig nú geta fylgst nokkuð nákvæmlega með hitastigi sjávar með því að mæla magn súrefnis og koltvísýrings í andrúmsloftinu. AFP

Hlýnun sjávar undanfarin 25 ár er verulega vanmetin, samkvæmt nýrri rannsókn sem gefur til kynna að hún sé 60% meiri en talið hefur verið hingað til. BBC greinir frá.

Að sögn vísindamannanna sem unnu skýrsluna, sem birt var í vísindatímaritinu Nature, felur þetta í sér að jörðin er mun viðkvæmari fyrir útblæstri gróðurhúsalofttegunda en áður hefur verið talið, sem kann að gera okkur erfiðar um vik að halda hlýnun jarðar innan ásættanlegra marka á þessari öld.  

Samkvæmt nýlegri skýrslu loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC) hafa höf jarðar tekið í sig yfir 90% af þeim viðbótar hita sem lokast inni í andrúmslofti jarðar af völdum gróðurhúsaloftegunda. Nýja rannsóknin bendir hins vegar til þess að undanfarin 25 ár hafi um 150 sinnum sú orka sem notuð er til að framleiða rafmagn um heim allar endað í höfunum og er það 60% meira en fyrri áætlanir gerðu ráð fyrir.  

BBC segir vísindamenn jafnan byggja útreikninga á hlýnun jarðar á viðbótar hitanum sem fylgi útblástri gróðurhúsalofttegundum af manna völdum. Samkvæmt þessum nýju útreikningum berst hins vegar mun meiri hiti til sjávar, sem þýðir að þeirra sögn að mun meiri hiti hefur myndast af völdum gróðurhúsalofttegundanna en talið hefur verið til þessa.

Því hlýrri sem höfin eru því meira mun yfirborð sjávar …
Því hlýrri sem höfin eru því meira mun yfirborð sjávar hækka. Mynd úr safni. AFP

Jörðin sé því mun viðkvæmari fyrir aukningu koltvísýrings en áður var talið.

Segja vísindamennirnir að það muni því reynast mun erfiðara að halda hlýnun jarðar í takt við Parísarsamkomulagið en áður var talið.

Þetta er mikið áhyggjuefni,“ segir dr. Laure Resplandy sem leiddi rannsóknina. Sé litið til þess að skýrsla IPPC sagði erfitt að halda hlýnuninni undir 1,5°, þá bendir „okkar rannsókn til þess að þetta verði enn erfiðara af því að við höfum lokað á allar auðveldari leiðir.“

Samkvæmt skýrslunni þarf minnkunin á losun koltvísýrings að vera 25% meiri áður var talið, eigi að takast að halda hlýnuninni undir 2°.

„Hlýrri höf innihalda minna súrefni og það hefur áhrif á vistkerfi sjávar,“ sagði Resplandy. „Svo er það líka yfirborð sjávar. Því hlýrri sem höfin eru því meiri hitaaukningin og þess vegna mun yfirborð sjávar hækka.“

BBC segir vísindamennina telja geta nú fylgst nokkuð nákvæmlega með hitastigi sjávar með því að mæla magn súrefnis og koltvísýrings í andrúmsloftinu, ólíkt  fyrri mæliaðferðum sem voru óáreiðanlegri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert