Rafbílavæðing hagkvæm fyrir neytendur og ríki

Rafbíll í hleðslu. Til lengri tíma litið er rafbílavæðing hagkvæm …
Rafbíll í hleðslu. Til lengri tíma litið er rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðina, til viðbótar við þann umtalsverða árangur sem hún skilar í samdrætti á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Mynd úr safni. AFP

Til lengri tíma litið er rafbílavæðing hagkvæm fyrir þjóðina, til viðbótar við þann umtalsverða árangur sem hún skilar í samdrætti á útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Þetta eru niðurstöður greiningar sem unnin var af Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík á vegum Samorku, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Orkuseturs, Íslenskrar nýorku og Grænu orkunnar og sem kynnt var nú í morgun.

Þá hefur rafbílavæðing að sögn skýrsluhöfunda einnig önnur jákvæð óbein áhrif sem snerta þjóðarhag, svo sem minni loftmengun og aukið orkuöryggi. Eru þau áhrif sögð verða jákvæðari eftir því sem rafbílavæðingin verður dýpri.

„Þegar þessir þættir eru teknir til greina eru áhrif rafbílavæðingar ótvírætt þjóðhagslega jákvæð,“ segir í skýrslunni.

Rafbílavæðing nauðsynleg en dugar ekki ein og sér

Ólíklegt er hins vegar, að mati skýrsluhöfunda, að rafbílavæðing ein og sér muni leiða til þess að markmiðum Parísarsamkomulagsins  um samdrátt í útblæstri gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum verði náð fyrir árið 2030, þó að rafbílavæðingin sé nauðsynlegur þáttur í þeirri vegferð.

Þau áhrif sem rafbílavæðingin mun hafa á afkomu ríkissjóðs eru háð þeim leiðum og stjórntækjum sem beitt verður til að hafa áhrif á orkuskipti í samgöngum. Segja skýrsluhöfundar rafbílavæðingunni þó muni fylgja kostnaður til skemmri tíma, en stýra megi því hvar hann lendi „með réttri notkun á stjórntækjum“.

Sú greining sem fjallað er um í skýrslunni  byggir á tveimur líkönum. Annars vegar á þjóðhagslíkani og hins vegar á líkani af íslenska orkukerfinu sem byggir á aðferðafræði kvikra kerfislíkana (e. system dynamics). Sviðsmyndirnar sem notaðar eru í greiningunni eru svo annars vegar óbreytt ástand, sem miðast við að núgildandi reglur um gjöld á ökutæki og eldsneyti séu óbreyttar til ársins 2050, og hins vegar sviðsmynd sem byggir á skýrslu starfshóps um skatta á ökutæki og eldsneyti fyrir árin 2020-2025. Þá eru einnig skoðaðar sviðsmyndir þar sem annars vegar er bætt við ívilnunum fyrir hreina rafbíla og hins vegar þar sem bann við nýskráningu bíla sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti tekur gildi árið 2030.

Jákvætt fyrir ríkið og neytendur

Gefa niðurstöður þessara sviðsmynda til kynna að heildaráhrif rafbílavæðingar séu jákvæð með tilliti til þjóðhagslegra stærða og fjárhagslegra hagsmuna neytenda.

Sú sviðsmynd  sem styður best við þau markmið að draga hratt úr útblæstri með hlutfallslega litlum kostnaði fyrir ríkissjóð og bílaeigendur eru svonefndar „Tillögur með viðbót“, en  þar er gert ráð fyrir varanlegri virðisaukaskattsívilnun á hreinum rafmagnsbifreiðum. Árangurinn í samdrætti af þeirri sviðsmynd er hins vegar mun lakari, en í þeirri sviðsmynd þar sem bann er sett.

Samkvæmt sviðsmyndinni sem gerir ráð fyrir banni næst mikill árangur eftir árið 2030 þegar bann við sölu bíla sem brenna jarðefnaeldsneyti tekur gildi og „við lok ársins 2050 er fjöldi rafmagnsbifreiða sambærilegur við sviðsmyndina „Tillögur með viðbót“, og útblástur hefur einnig dregist álíka mikið saman. Hins vegar er útblástur árið 2030 verulega meiri í sviðsmyndinni „Tillögur með banni“ heldur en í „Tillögur með viðbót“, og uppsafnaður heildarútblástur er einnig umtalsvert meiri,“ segir í niðurstöðum skýrslunnar.

Ívilnunum og banni verði blandað saman

Af þessu segja skýrsluhöfundar að draga megi þá ályktun að bannið sé sterk aðgerð sem hafi jákvæð áhrif. Þörf sé þó á öðrum áhrifaríkum aðgerðum þar til það taki gildi, þar sem 12 ára tímabilið frá 2018 til 2030 skipti miklu máli.

Því geti verið áhugavert að skoða fleiri sviðsmyndir þar sem ívilnunum og banni sé blandað saman. „Einnig væri áhugavert að taka inn í greininguna aðra vistvæna valmöguleika svo sem metan og vetni. Því til viðbótar væri áhugavert að greina betur aðgerðir sem taka til þyngri ökutækja til atvinnurekstrarnota.“

Breytingar á samsetningu íslenska bílaflotans er verkefni sem tekur langan tíma og því „afar ólíklegt“ að rafbílavæðing ein og sér leiði til þess að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð fyrir árið 2030, þótt hún sé vissulega nauðsynlegur þáttur í þeirri vegferð. „Til að markmiðum Parísarsamkomulagsins verði náð að fullu þarf mun áhrifaríkari aðgerðir en hafa verið greindar í þessari skýrslu, ásamt því að skoða aðrar kerfislegar breytingar eins og til dæmis að greiða fyrir úreldingu mengandi bifreiða, eflingu almenningssamgangna og aðgerða  sem stuðla að breyttum ferðavenjum,“ segir í niðurlögum skýrslunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert