Tilraunaland með tækninýjungar

Guðmundur Hafsteinsson ræddi framtíð og tækifæri Íslands í nýsköpun og ...
Guðmundur Hafsteinsson ræddi framtíð og tækifæri Íslands í nýsköpun og tækni. mbl.is/Árni Sæberg

„Við verðum að ákveða það sem þjóðfélag að við ætlum að lifa í framtíðinni, öllum heiminum til hagsbóta,“ segir Guðmundur Hafsteinsson, frumkvöðull, stjórnandi hjá Google og nýskipaður formaður stýrihóps um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland. Guðmundur hélt erindið „Framtíð Íslands“ á föstudag í nýrri fyrirlestaröð Háskóla Íslands, Nýsköpun – hagnýtum hugvitið.

Guðmundur lagði áherslu á að íslenskt þjóðfélag ætti að taka þá stefnu að vera fimm árum á undan samtíðinni í stað þess að vera fimm árum á eftir.

„Við erum 350.000 manna þjóðfélag, sem er kjörin stærð til þess að prófa ýmsar tækninýjungar,“ segir Guðmundur og nefnir sem dæmi sjálfkeyrandi bíla eða aðrar tækninýjungar. Hann segir að fyrir utan smæð þjóðarinnar hafi Ísland upp á að bjóða græna orku, hæft fólk og sérfræðinga úr öllum greinum sem hægt sé að leiða saman á einfaldan og fljótlegan hátt.

„Við þurfum að gæta hagsmuna allra en það er aðlaðandi sýn fyrir þjóðfélagið að taka þátt í einu tímabundnu verkefni og sjá hvernig til tekst án þess að opna allar dyr upp á gátt. Það þarf hugrekki þjóðar til þess að taka slíkt skref og því fylgir áhætta,“ segir Guðmundur og bendir á að það þurfi að vinna hratt og vel.

Fyrsta skrefið væri að skapa vinveitt og stuðningsríkt umhverfi nýsköpunar og sú vinna sé nú í gangi. Annað skrefið væri að finna hentugt verkefni og koma því í gang áður en við missum af lestinni. Guðmundur segir að ekki megi láta hræðsluna við það sem við þekkjum ekki ráða för en hann skilji að fólk sé hrætt við það sem ekki sér fyrir endann á hvert leiði.

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagði hugmyndir Guðmundar áhugaverðar og mikill fengur væri að því að hafa hann í forsvari fyrir stýrihópinn um mótun nýsköpunarstefnu fyrir Ísland.

„Guðmundur hugsar stórt og við Íslendingar eigum að vera óhrædd við að hugsa stórt. Það á við í þessu sem öðru, hvort sem er einstaklingar eða samfélag, að þú kemst aldrei lengra en þú ætlar þér,“ segir Kolbrún og bætir við að hugmyndir Guðmundar setji aðra hluti í samhengi og tiltekur markmið Íslands um orkuskiptin sem margir mikli fyrir sér. Hún segir skiljanlegt að fólk geri það og ekki geri hún lítið úr því.

Einblína á styrkleikana

„Við verðum alltaf að spyrja okkur: Hvernig getum við verið gerendur í öllum þeim breytingum sem fram undan eru en ekki eingöngu þiggjendur? Guðmundur lagði fram hugmynd, í raun einhvers konar hugvekju, sem ég vona að sé tilefni fyrir fleiri að segja sína skoðun á og ræða frá alls konar sjónarhornum. Mér fannst jákvætt hvernig hann einblíndi á hvar styrkleikar okkar liggja og það eigum við að gera. Því sama hvaða leið verður fyrir valinu eigum við að byggja hana á sérstöðu okkar og styrkleika,“ segir Þórdís og tekur undir með Guðmundi að það sé mannlegt að hræðast tæknina, sérstaklega þegar svarið við því hvert breytingar leiði samfélagið liggi ekki fyrir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Til sölu 16" álfelgur og snjódekk
Felgurnar eru original Mitsubishi 16", gatadeiling 108x5. Dekkin eru Firestone ...
STIGAR OG HANDRIÐ ALLAR MÖGULEGAR GERÐIR
Mælum, teiknum, smíðum og setjum upp, myndir á Facebook: Magnus Elias>Mex byggin...
Útsala !!! Bækur.....
Til sölu bækur...Vestur íslenskar æviskrár..1-5.bindi..Hraunkotsætt... Lygn str...
HARMONIKKUHURÐIR SPARA MIKIÐ PLÁSS
Margar viðartegundir og litir, smíðað eftir máli. Verð frá kr. 13.900,- Sími 61...