Merkur fundur í Sakkara

Hluti kattamúmíanna sem fundust við uppgröftinn í Sakkara.
Hluti kattamúmíanna sem fundust við uppgröftinn í Sakkara. AFP

Sjö steinkistur, allt að 6.000 ára gamlar, hafa fundist við píramídana í Sakkara, sunnan við Kaíró, höfuðborg Egyptalands. Tugir kattamúmía eru á meðal þess sem fannst í kistunum, en einnig voru þar tvær taðuxamúmíur, þær fyrstu sem hafa fundist á þessu svæði.

Khalel el-Enany, fornmunaráðherra landsins, og Mostafa Waziri, yfirmaður fornleifaráðs Egypta, greindu frá þessu á blaðamannafundi í dag og sögðu fundinn afrakstur uppgraftar egypskra fornleifafræðinga, sem hófst í apríl á þessu ári.

Kettir voru í miklum metum hjá Egyptum til forna og voru gjarnan gerðir að múmíum, en auk þessa mikla fjölda kattamúmía fundust einnig fleiri en hundrað gylltar viðarstyttur í kattarlíki og einnig kattarstytta úr bronsi, en bronsstyttan var tileinkuð kattargyðjunni Bastet.

Þá fundust einnig gylltar viðarstyttur af ljóni, kú og fálka við uppgröftinn, samkvæmt frétt AFP-fréttaveitunnar um málið.

Gripirnir voru kynntir í dag.
Gripirnir voru kynntir í dag. AFP
Fornleifafræðingur hreinsar bronsstyttuna sem fannst við uppgröftinn.
Fornleifafræðingur hreinsar bronsstyttuna sem fannst við uppgröftinn. AFP
Mannmergð mætti til Sakkara á kynninguna í dag.
Mannmergð mætti til Sakkara á kynninguna í dag. AFP
AFP
AFP
AFP
mbl.is