Blindandi eistnaskoðun framtíðin?

Hér getur að líta þessa nýstárlegu tækni. Eins og sést …
Hér getur að líta þessa nýstárlegu tækni. Eins og sést losnar sjúklingurinn hér með við að horfa djúpt í augun á lækninum meðan á skoðun stendur. Ljósmynd/Aðsend

Karlar sem blygðast sín um of við að leyfa sérfræðingum að þreifa á kynfærum sínum, geta nú prísað sig sæla því nýsjálenskir vísindamenn bjóða fram lausn. Hún heitir Testimatic.

Testimatic er klefi sem þú gengur inn í og afklæðist. Þar er lítið op sem læknishendur smjúga í gegnum og kanna þannig hreðjar sjúklingsins blindandi. Að þessu leyti er fyrirbrigðið ekki óáþekkt klefum kaþólikka er þeir ganga til skrifta.

Á vef NZ Herald er myndband af byltingarkenndri tækninni.

Testimatic verður kynntur til leiks á ráðstefnu í Auckland í Nýja-Sjálandi um helgina. Markmiðið með honum er að vonum það að fá karla til þess að fara í skoðun. Á vef BBC er eistnakrabbamein einmitt sagt algengasta krabbamein ungra karla.

Ráðstefnan ætti að höfða til rétts hóps, ungra karla, enda er yfirskriftin „Big Boys Toys“, sum sé leikföng fyrir stóra stráka.

Klefinn kann að stuðla að betri mætingu karla í skoðun. Á Íslandi greinast 10 karlar árlega með eistnakrabbamein og meðalaldur við greiningu er 34 ár. Fyrir liggur að það getur margborgað sig að fara í skoðun enda læknast flestir og 99% eru á lífi fimm árum eftir greiningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert