Aðeins 40% Mars-leiðangranna hafa heppnast

AFP

Bandaríska geimfarið InSight, sem á að lenda á Mars á mánudaginn kemur, verður fyrsta geimfarið til að lenda þar frá árinu 2012. Geimvagninn Curiosity var þá sendur þangað með það að meginmarkmiði að rannsaka hvort aðstæður á Mars væru eða hefðu verið heppilegar fyrir örverur.

Alls hefur 43 Mars-förum verið skotið á loft og aðeins átján þeirra hafa komist heilu og höldnu til reikistjörnunnar, eða um 40% þeirra, að sögn AFP. „Það er mjög, mjög erfitt að koma geimfari til Mars,“ hefur fréttaveitan eftir Thomas Zurbuchen, einum stjórnenda Mars-leiðangra Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna, NASA.

Meginmarkmiðið með leiðangri InSight er að gera jarðeðlisfræðilegar mælingar á Mars og veita vísindamönnum innsýn í þróun bergreikistjarna sólkerfisins. Leiðangurinn er einnig liður í áformum NASA um að leysa ýmis tæknileg vandamál sem hindra að geimvísindastofnunin geti sent mannað geimfar til Mars. AFP hefur eftir embættismönnum NASA og öðrum sérfræðingum að það tæki líklega 25 ár að leysa þessi vandamál og gera geimvísindastofnuninni kleift að senda geimfara til Mars.

NASA hyggst senda geimvagn á yfirborð Mars árið 2020 til að leita að vísbendingum um hvort líf hafi þrifist þar, kanna hugsanlegar auðlindir og meta hætturnar sem Mars-farar gætu staðið frammi fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert