Google sakað um blekkingar

Google er sakað um að hafa brotið reglugerð ESB.
Google er sakað um að hafa brotið reglugerð ESB. AFP

Neytendahópar frá sjö Evrópuríkjum hafa lagt fram kvörtun gegn Google. Þeir saka tölvurisann um að hafa með leynilegum hætti fylgst með hreyfingum notenda sinna, sem sé brot á reglugerð Evrópusambandsins um persónuupplýsingar.

Hóparnir vísa til rannsóknar á vegum norska neytendaráðsins þar sem kom fram að Google hafi notað „blekkjandi hönnun og misvísandi upplýsingar sem verði til þess að notendur samþykkja að vera undir stanslausu eftirliti“.

Gro Mette Moen úr norska neytendaráðinu sagði að „Google notaði mjög nákvæmar og yfirgripsmiklar persónuupplýsingar án þess að byggja á tilheyrandi lagagrundvelli og upplýsingarnar eru fengnar með blekkjandi aðferðum“.

Kvartanirnar voru lagðar fram í Tékklandi, Grikklandi, Hollandi, Noregi, Póllandi, Svíþjóð og Slóveníu. Þær byggja á lögum ESB sem tóku gildi í maí.

Google er sakað um að hafa fylgst með ferðum notenda sinna í gegnum Location History og Web & App Activity. Að sögn norska ráðsins er sérstaklega erfitt fyrir síma með Android-kerfi, þar á meðal frá Samsung og Huawei, að komast hjá því að nota þessi forrit.

Að sögn netsíðunnar Statcounter eru um 70% farsíma í Evrópu með Android-kerfi.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert