Hættir tilraunum með erfðabreytt börn

Kínverski vísindamaðurinn He Jiankui flutti erindi á læknaráðstefnu í Hong ...
Kínverski vísindamaðurinn He Jiankui flutti erindi á læknaráðstefnu í Hong Kong í dag. AFP

Kínverskur vísindamaður segist ætla að bíða með frekari tilraunir með erfðabreytingu á börnum eftir hávær mótmæli frá vísindasamfélaginu sem og almenningi í kjölfar þess að hann sagðist hafa breytt erfðaefni tveggja stúlkna.

He Jiankui, vísindamaðurinn sem segist hafa framkvæmt tilraunina og búið til fyrstu erfðabreyttu börn sögunnar, sagði á læknaráðstefnu í Hong Kong í dag að honum hefði tekist að breyta erfðaefni (DNA) tvíburastúlkna. Faðir þeirra er með HIV að sögn He en breytingin á erfðamenginu þýði að dætur hans geti ekki smitast af veirunni. Í ræðu sinni á ráðstefnunni sagðist hann stoltur af vinnu sinni. Erfðabreyting á fósturvísum eins og sú sem He segist hafa framkvæmt er bönnuð í flestum löndum heims.

He segir að átta pör hafi boðist til að taka þátt í frekari tilraunum. Í öllum tilvikum er karlinn HIV-smitaður en konan ekki. Eitt par hefur þegar hætt við þátttöku að sögn He eftir að umræða um tilraunina fór af stað í fjölmiðlum. He segir að niðurstöðum tilraunarinnar hafi verið lekið án sinnar vitundar og því sé hún nú í biðstöðu.

He sagðist hafa unnið að tilraununum í samstarfi við sjúkrahús í Kína en yfirmenn sjúkrahússins, Shenzhen Harmonicare-kvenna- og barnaspítalans, grunar að undirskrift á skjali um samþykkt tilraunarinnar sé fölsuð. Sjúkrahúsið hefur beðið lögregluna að rannsaka málið. Í yfirlýsingu spítalans segjast yfirmennirnir alfarið á móti genatilraunum á mönnum. 

Þá hefur háskólinn sem He starfar við neitað þátttöku og segir He hafa unnið að tilraunum sínum utan skólans.

Tvíburastúlkurnar sem He segir afrakstur tilrauna sinna fæddust fyrir nokkrum vikum. Erfðaefni fósturvísanna var breytt að sögn vísindamannsins. 

Vísindamenn víða um heim hafa fordæmt tilraunirnar sem gerðar voru á heilbrigðum fósturvísum. Þær eru sagðar ótímabærar og hættulegar.

Hópur 100 kínverskra vísindamanna gaf út sameiginlega yfirlýsingu þar sem tilraun He var fordæmd. Krafðist hópurinn þess að kínversk yfirvöld myndu bæta lagaumhverfi hvað þetta varðar.

mbl.is
INTENSIVE ICELANDIC, ENGLISH, NORWEGIAN & DANISH f. foreigners - ÍSLENSKA f.útl - ENSKA - NORSKA
ÍSLENSKA, ENSKA, NORSKA, DANSKA: I, II, III, IV, V, VI: 2018: AUTUMN/HAUST: ...
Hvernig líst þér á Natalie
Vissir þú að nú er 36.000 afsláttur af Natalie? Bjóðum upp á þennann afslátt fra...
SUMARHÚS- GESTAHÚS- BREYTINGAR
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
www.flutningur.is 5753000 sendibilastöð
Stöðin býður upp á allar stærðir sendibíla og veitir trausta og umfram allt góð...