Kolanotkun jókst á milli ára

Kolanáma í Pakistan.
Kolanáma í Pakistan. AFP

Kol eru enn helsti orkugjafi til rafmagnsframleiðslu í heiminum. Þau eru einnig sá orkugjafi sem gefur frá sér mest af koltvíoxíði sem veldur loftslagsbreytingum.

Þrátt fyrir tilraunir til að draga úr hlýnun jarðar jókst spurn eftir kolum á heimsvísu um 1% í fyrra. Má aukninguna rekja til Asíu.

Kínverjar eru sú þjóð heims sem notar langmest af kolum til að framleiða rafmagn. Þar í landi er nú orðinn mikill þrýstingur á stjórnvöld að bæta loftgæði í þéttbýli og að skipta yfir í aðra og umhverfisvænni orkugjafa.

Lönd á borð við Kanada, Þýskaland og Bretland hafa sett sér stefnu um að draga úr notkun kola í skrefum. Sömu sögu er ekki að segja um önnur lönd. Svo virðist sem Indland stefni hraðbyri að því að taka við stöðu Kína sem mesti kolanotandi heims. Þá eru kol einnig notuð í auknum mæli í Indónesíu, Malasíu, Pakistan, á Filippseyjum og í Víetnam.

„Mörg fátækari ríki telja kol mikilvæg í efnahagslegum tilgangi þar sem þau eru tiltölulega ódýr og aðgengileg,“ segir í skýrslu Alþjóðlegu orkustofnunarinnar, IEA. 

Stofnunin gerir ráð fyrir því að draga muni úr kolanotkun í Kína, innan Evrópusambandsins og í Bandaríkjunum á næstu árum en að notkunin muni hins vegar aukast í Suðaustur-Asíu á sama tímabili.

Um 40% af losun koltvíoxíðs á síðasta ári var frá kolabrennslu. Í kjölfarið fylgdi olía og þá jarðgas.

IEA segir mikla þörf á því að finna leiðir til að draga úr þessari losun meðal annars með nýjum tæknilausnum.

mbl.is