Stjörnuhiminninn hvelfist yfir gesti

Sætin hallast aftur og eftir smástund í rökkrinu líður gestum …
Sætin hallast aftur og eftir smástund í rökkrinu líður gestum eins og þeir svífi meðal stjarnanna. Hvelfingin skapar sérstaka stemningu mbl.is/Árni Sæberg

Það er mikil upplifun að sjá náttúru Íslands og norðurljósin hvelfast yfir mann í stjörnuverinu í Perlunni. Tæknin er svo háþróuð að hægt er að uppfæra myndirnar af reikistjörnunum nánast í rauntíma. Hægt er að tengja upplýsingar frá vísindamönnum beint inn í kerfið.

Má fullyrða að þessi 150 manna sýningarsalur sé sá fullkomnasti sem settur hefur verið upp á Íslandi. Hann er í einum tanka Perlunnar.

Áður en gengið er inn í stjörnuverið er farið í forrými sem minnir á dimman helli. Þar eru m.a. hljóðlistaverk eftir Bryndísi Bolladóttur.

Sævar Helgi Bragason, stjörnuáhugamaður og rithöfundur, hefur sem ráðgjafi komið að undirbúningi verkefnisins. Stjörnuverið verður hluti sýningarinnar Undur íslenskrar náttúru.

Sævar Helgi segir milli þrjú og fjögur þúsund stjörnuver í heiminum. Nýja stjörnuverið í Perlunni sé með þeim allra fullkomnustu og í flokki með stjörnuverunum í New York og Varsjá.

Bylting í kennslu á Íslandi

Stjörnuverið í Perlunni sé því bylting í stjörnuskoðun og náttúrufræðikennslu á Íslandi.

Stjörnuverið verður opnað fyrir almennum gestum nk. mánudag. Sýnd er heimildarmynd um Ísland sem fer með gesti ofan í iður jarðar og jökla, á iðjagrænar heiðar og út í stjörnubjartan himingeiminn.

Þremur mánuðum síðar er svo áformað að hefja sýningar myndar um norðurljósin sem Sævar Helgi og fjölmennt lið tæknimanna og listamanna hafa unnið að.

Gunnar Gunnarsson (til vinstri) og Sævar Helgi Bragason.
Gunnar Gunnarsson (til vinstri) og Sævar Helgi Bragason. mbl.is/Árni Sæberg

Gunnar Gunnarsson, forstjóri Perlu norðursins, segir tæknina í stjörnuverinu mjög fullkomna svo framleiða hafi þurft sérstakt efni til að tæknin njóti sín til fulls. Upplausnin sé með því besta sem þekkist í heiminum nú um stundir (8K).

Áhugi erlendis frá

Gunnar áætlar að af þeim þrjú til fjögur þúsund stjörnuverum sem til eru í heiminum séu 300 til 400 sem geti borið efni í upplausninni 2K til 4K og aðeins nokkur sem bera upplausnina 8K. Nokkur erlend stjörnuver hafi þegar sýnt áhuga á myndinni sem Perla norðursins hefur látið framleiða. Einnig er búið að tilnefna myndina til alþjóðlegra verðlauna.

„Við stofnuðum því eigið framleiðslufyrirtæki sem getur búið til svona efni. Það er ekki auðvelt að ná svo miklum myndgæðum. Til þess að geta verið með flottasta efnið þurftum við því að taka það upp sjálf. Græjan hérna er ein sú flottasta í heimi,“ segir Gunnar.

Sýningarkerfið komi frá bandaríska fyrirtækinu Evans and Sutherland, frá Salt Lake City. Gagnabankinn sé unninn af því og Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA. „Þetta er nánast ótæmandi gagnabanki um stjörnur og reikistjörnur,“ segir Gunnar.

Óskar Rúnar Harðarson, stofnandi og fjárfestir að baki verkefninu, segir eldgos frábært myndefni. „Um leið og það fer að gjósa getum við farið að taka upp efni,“ segir hann.

Sævar Helgi útskýrir svo að við gerð myndanna sé notast við sex kvikmyndavélar samtímis. Tölva setji svo saman myndirnar svo úr verður 180x360 gráða hvolfmynd.

Sævar Helgi segir það koma á óvart hversu skýrar myndirnar eru.

„Sólarupprásin er eins og hún birtist með berum augum. Það er magnað að sjá Vetrarbrautina. Stjörnurnar eru allar kristaltærar. Gæðin skína í gegn. Það taka kannski ekki allir eftir því en við sem liggjum í stjörnuskoðun sjáum það vel. Ég sé þetta fyrst og fremst fyrir mér sem fræðslumiðstöð og get ekki beðið eftir því að bjóða skólakrökkum og kennurum að fræðast um alheiminn. Með þessari tækni er hægt að sníða hverja sýningu að þörfum einstakra hópa,“ segir Sævar Helgi.

Sú fyrsta í þessum gæðaflokki

Hann segir norðurljósamyndina verða „fyrstu norðurljósamyndina sem gerð er fyrir stjörnuver í heiminum í eins miklum gæðum og mögulegt er.“ „Myndin er bylting að því leyti og ég vona að hún rati sem víðast. Myndefnið er frá mjög fallegum stöðum á Íslandi,“ segir Sævar.

Meðal samstafsmanna hans við gerð norðurljósamyndarinnar eru ljósmyndararnir Ragnar Th. Sigurðsson, Snorri Þór Tryggvason og Babak Tafreshi, sem er frá Íran.

Sævar Helgi segir hugmyndir um að setja upp stjörnukíki á útsýnispallinum í Perlunni. Þaðan sé hægt að skoða reikistjörnur í sólkerfinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert