Far Nasa komið að Bennu

Bennu er demantslaga eins og sjá má á þessari mynd …
Bennu er demantslaga eins og sjá má á þessari mynd sem tekin var úr rannsóknarfarinu Osiris-Rex nýverið. AFP

Eftir tveggja ára eftirför er mannlaust rannsóknarfar Nasa, Osiris-Rex, loks komið að smástirninu Bennu. Farið mun fara á braut um smástirnið á síðasta degi ársins. 

Í frétt Guardian segir að Bennu sé mögulega hættulegt smástirni því að eftir um 150 ár mun það koma nálægt jörðu. Ef það lendir í árekstri við plánetuna okkar mun Bennu að öllum líkindum skilja eftir sig stóran gíg.

Osiris-Rex er ætlað að safna að minnsta kosti 60 grömmum af ryki og möl af Bennu. Farið mun ekki lenda á smástirninu heldur nota þriggja metra langan arm til verksins. Það verður gert árið 2020. Ílát með sýnishornunum í mun svo halda af stað til jarðar árið 2021 og lenda þar árið 2023, gangi allt að óskum.

Vísindamenn vonast til þess að komast að ýmsu um sólkerfið með rannsóknum á Bennu. 

Bennu er í 122 milljóna kílómetra fjarlægð frá jörðu og því tók það upplýsingar um að rannsóknarfarið væri komið að smástirninu sjö mínútur að berast til stjórnstöðvar þess í Colorado. Bennu er sannarlegt smástirni eða um 500 metrar í þvermál. Frekari upplýsinga um Bennu verður nú aflað og þeim deilt á næstu vikum og mánuðum.

Bennu er ekki eina smástirnið sem vísindamenn eru áhugasamir um. Japanskt rannsóknarfar hefur frá því í júní haldið til við annað smástirni frá því í júní. Það smástirni er kallað Ryugu og er tvöfalt stærra en Bennu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert