Hreindýr á heimskautasvæði helmingi færri

Hreindýrstarfur á norðurslóðum.
Hreindýrstarfur á norðurslóðum. Af Wikipedia

Stofn villtra hreindýra á norðurheimskautinu hefur minnkað um meira en helming á síðustu tveimur áratugum. Í nýrri skýrslu um áhrif loftslagsbreytinga á heimskautasvæðum kemur fram að þeim hefur fækkað úr um 5 milljónum í um 2,1 milljón.

Skýrslan var birt á fundi American Geophysical Research Union, sambandi um jarðvísindarannsóknir í Bandaríkjunum. Í henni er útskýrt hvernig breytingar á veðurfari og gróðurfari hafa gert túndru norðurheimskautasvæða mun erfiðara búsvæði fyrir hreindýrin.

Verst er komið fyrir hjörðum í norðurhluta Kanada og í Alaska, að því er fram kemur í skýrslunni. Sumar hjarðirnar hafa minnkað um allt að 90%, „svo mikið að bati er ekki í sjónmáli,“ segir í skýrslunni sem kallast Einkunnaspjald norðurheimskautsins.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að hlýnun loftslags hefur neikvæð áhrif á hreindýr á norðurslóðum.

„Við sjáum oftar þurrka á sumum svæðum vegna hlýnunar loftslags og hlýnunin sjálf veldur breytingum á gróðri,“ segir Howard Epstein, prófessor í umhverfisvísindum við Háskólann í Virginíu og einn höfunda skýrslunnar. Í samtali við BBC bendir hann á að hlýnun á heimskautasvæðum sé ekki á undanhaldi.

Fléttugróðurinn sem hreindýrin éta vex þétt við jörðina. „Hlýnunin þýðir að annar og hávaxnari gróður vex og flétturnar hörfa,“ segir hann.

Þá snýr vandinn einnig að skordýrafánunni. „Hlýnandi loftslag þýðir einfaldlega fleiri skordýr á norðurheimskautinu,“ segir Epstein. „Orðatiltækið segir að góður dagur fyrir fólk sé vondur dagur fyrir hreindýr. Ef það er hlýtt og ekki vindasamt eru skordýrin ágeng og [hreindýrin] eyða mikilli orku í að losa sig við skordýrin eða í að finna stað þar sem þau geta falið sig fyrir þeim.“

Hreindýrahjörð heldur sig á snjóskafli til að forðast skordýr.
Hreindýrahjörð heldur sig á snjóskafli til að forðast skordýr. Af Wikipedia

Þá er aukin úrkoma í formi rigningar einnig vandamál. Rigning á heimskautasvæðinu fellur oft á snæviþakta jörð og þá myndast hörð frosin ísbrynja sem hylur hina grösugu túndru. Í gegnum þetta íslag geta dýrin einfaldlega ekki komist til að sækja sér æti.

Og þá er spurningin, er eitthvað hægt að gera?

Á heimsmælikvarða snúast aðgerðir um að draga úr losun kolefnis og draga þannig úr hækkun hitastigs.

En vísindamenn segja að við höfum skilið dyr „frystikistu heimsins“ eftir opnar og sífellt bætir í þann stafla rannsókna sem benda til að hlýnun á norðurheimskautinu muni halda áfram. Með rannsókn sem þessari er reynt að varpa ljósi á áhrifin sem loftslagsbreytingar hafa og læra hvernig megi aðlaga sig þeim.

Það er NOAA, Haf- og loftslagsstofnun Bandaríkjanna, sem gefur skýrsluna út og nú í þrettánda sinn. Emily Osborne, sem fer fyrir rannsóknarverkefninu, segir að mikil óvissa ríki á heimskautasvæðinu. Hún segir að í gegnum árin hafi hlýnun orðið sífellt meiri og að það valdi aftur öfgafullu veðri annars staðar í heiminum.

Í rannsókninni segir m.a. að magn örplasts á heimskautasvæðinu hafi aukist. Það ógni fuglum og sædýralífi.

Heimskautaísinn er að vakna, segja vísindamenn og eiga þar við …
Heimskautaísinn er að vakna, segja vísindamenn og eiga þar við að hann sé að bráðna vegna loftslagsbreytinga. mbl.is/RAX

Þá segir að hitastig hafi á síðustu árum mælst hærra en í nokkru ári þar á undan allt frá því að mælingar hófust árið 1900. Hafísinn sé að þynnast. Í ár er hann þynnri og þekur minna hafsvæði en áður fyrr.

Að auki kemur fram í skýrslunni að eitraðir þörungar blómstri sem aldrei fyrr í sjó sem er að hitna. 

Einnig má nefna að vísindamenn hafa upplýst  að jöklar á austurhluta Suðurskautslandsins séu að „vakna“ og farnir að bregðast við hlýnun. Þar með eru breytingar að verða bæði nyrst og syðst á plánetunni jörð sem eiga sér engin fordæmi, segir í frétt BBC. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert