Góði fóturinn - styrkjum sterku hliðarnar

Leggja ætti áherslu á að þjálfa þær hliðar sem þegar …
Leggja ætti áherslu á að þjálfa þær hliðar sem þegar eru sterkar. Thinkstock Photos

Fræðimennirnir Sala og Gobet fundu út í sinni rannsókn að góðir skákmenn og framúrskarandi klassískir tónlistarmenn eru að meðaltali „klárari“ en almenningur. Þeir bentu líka á að þeir sem stunda slíkt verða eingöngu betri á sínu sviði en verða ekki klárari á öðrum sviðum. Það er að segja yfirfærslur frá til dæmis skák til annarra sviða eins og stærðfræði eða tungumála voru litlar sem engar. Þannig að Magnus Carlsen, besti skákmaður í heiminum í dag, er framúrskarandi í skák, en ef hann ætlar sér að verða góður á öðru sviði þarf hann að stunda mikla þjálfun á því sviði.

Hermundur Sigmundsson.
Hermundur Sigmundsson. Ljósmynd/Aðsend

Fremsti þjálfari Noregs í knattspyrnu, Nils Arne Eggen, sem þjálfaði Rosenborg í tugi ára, talaði um „godfoten“, það er að segja mikilvægi þess að finna sterku hliðar hvers leikmanns. Það voru þættir sem gerðu hvern leikmann einstakan. Nils lagði mikla áherslu á að leikmenn myndu leggja rækt við að þjálfa sinn „godfot“ – þannig að sá einstaklingur yrði enn þá betri í því sem hann er þegar góður í. Þetta stemmir vel við það sem kallast „spesifisitet“ – sérhæfing. Þú þróar akkúrat það sem þú þjálfar. Ef maður spáir í þá færni sem framúrskarandi einstaklingar búa yfir þá liggur mikil þjálfun og reynsla á bak við þá færni.

Eitt dæmi er Carlsen sem er búinn að æfa skák frá fimm ára aldri. Annað dæmi er músíksnillingurinn Björk Guðmundsdóttir sem er búin að vera syngjandi frá barnsaldri. Það að Gylfi Sigurðsson skori oft í fríspörkum utan teigs kemur ekki af sjálfu sér heldur eftir þrotlausar æfingar. Sama má segja um þá sem fá góðar einkunnir í mismunandi fögum í skóla. Há greindarvísitala (IQ) er ekki nóg heldur þarf mikla þjálfun í þeirri færni sem maður vill bæta sig í. Í því samhengi er algjört lykilatriði að vita hvar maður stendur og hvaða þætti maður þarf að vinna með til að geta bætt sig.

Eitt dæmi er með nemendur í 9. bekk sem taka stöðupróf í stærðfræði, þeir þurfa að fá að vita hvað þeir þurfa að vinna með til að bæta sig, það gæti verið að einn unglingur þurfi að vinna betur með algebru og skilning á því að mínus fyrir framan sviga breytir formerkjum inni í sviganum. Þá þarf viðkomandi aðili að æfa sig í akkúrat slíkum verkefnum. Þessi sami unglingur getur hins vegar haft góða kunnáttu í rúmfræði. Rannsóknir hafa sýnt fram á mikla sérhæfingu í stærðfræði. Eitt 10 ára barn getur til dæmis verið með góða færni í venjulegum plús-verkefnum eins og 5+12 en ekki haft góða færni í plús í texta. Þar getur til dæmis lestrarfærni og lesskilningur valdið vandamálum. Þess vegna hafa fræðimenn bent á að það sé kannski ekki rétt að byrja að leggja áherslu á orðadæmi of snemma. Alla vega ekki fyrr en börn eru vel læs. Rannsóknir sýna að 27% af börnum kunna ekki að lesa eftir 1. bekk í grunnskóla, þar af eru 70% drengir. Þannig að mikilvægt er að leggja áherslu á grunnleggjandi færni, svo sem lestur, á fyrstu stigum grunnskólans. Einnig er mikilvægt að finna áhugasvið hvers og eins og gefa einstaklingum möguleika á að vinna með sitt áhugasvið, „godfoten“.

Í einu stærsta blaði Noregs, Dagbladet, var viðtal við sérfræðinga á sviði starfsþróunar og þeir bentu á mikilvægi þess að ungt fólk fyndi sitt áhugasvið og gerði starfsferil á því sviði. Ef sterk áhugahvöt er á bak við þitt val eru miklu meiri möguleikar á að þú eyðir meiri tíma í að verða góður á því sviði, sem sagt, þú færð aukna orku til að vinna með það svið. Í þessu samhengi gætum við sagt að einstaklingar eigi að finna sitt áhugasvið og rækta sínar sterku hliðar.

Styrkjum „godfoten“.

Hermundur Sigmundsson er prófessor í lífeðlislegri sálfræði við Háskólann í Þrándheimi og Háskólann í Reykjavík og skrifar pistla um vísindi og samfélag. Pistillinn birtist fyrst í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins 9. desember 2018.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »