Facebook lögsótt í Washington DC

Facebook hefur nú verið lögsótt af saksóknara í Washington DC.
Facebook hefur nú verið lögsótt af saksóknara í Washington DC. AFP

Saksóknari í Washington DC hefur lagt fram kæru á hendur Facebook í tengslum við Cambridge Analytica-skandalinn. Þetta er sögð fyrsta stórtæka lögsókn yfirvalda vestanhafs sem miðar að því að refsa samfélagsmiðlafyrirtækinu fyrir að hafa veitt Cambridge Analytica aðgang að persónuupplýsingum tugmilljóna Facebook-notenda án þeirra samþykkis eða vitneskju.

Washington Post greindi frá þessu í dag og hefur eftir saksóknaranum Karl Racine að Facebook hafi láðst að vernda einkalíf notenda sinna og villt fyrir um þeim varðandi það hverjir hefðu aðgang að og hvernig gögn um þá væru notuð.

BBC fjallar einnig um málið og segir frá því að auk þessarar lögsóknar í Washington DC sé meint glæpsamlegt athæfi Facebook til skoðunar hjá fleiri alríkisstofnunum vestanhafs.

Bresk yfirvöld hafa þegar sektað Facebook um hálfa milljón sterlingspunda vegna Camdbridge Analytica-skandalsins og Facebook gæti einnig átt yfir höfði sér lögsókn í Írlandi vegna ýmissa brota er lúta að upplýsingaöryggi sem þar eru til rannsóknar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert