Heimskulegt að senda menn til Mars

Bill Anders (lengst til vinstri) ásamt félögum sínum þeim Jim …
Bill Anders (lengst til vinstri) ásamt félögum sínum þeim Jim Lovell og Frank Borman sem voru fyrstir til að yfirgefa sporbraut jarðar og fara á braut um tunglið árið 1968. Ljósmynd/Wikipedia.org

Geimfarinn Bill Anders, sem var einn af þeim fyrstu sem fór á sporbraut um tunglið, segir að það sé heimskuleg hugmynd að ætla að senda menn til Mars. 

Anders, sem stýrði tunglferjunni Appollo 8 árið 1968, sem er fyrsta geimferjan sem yfirgaf sporbraut jarðar, sagði í samtali við BBC, að það að senda mönnuð geimför til mars væri „næstum því fáránlegt“. Anders var hluti þeirra geimfara sem sótti Ísland heim til æfinga á sjöunda áratugnum.

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA er nú að undirbúa mannaðar geimferðir til tunglsins. 

Fræg ljósmynd af jörðinni sem geimfararnir um borð í Apollo …
Fræg ljósmynd af jörðinni sem geimfararnir um borð í Apollo 8-geimferjunni tóku 24. desember árið 1968. Engin maður hafði þá farið jafn langt frá jörðinni og var mikilvægur áfangi fyrir sjálfa tunglendinguna rúmu hálfu ári síðar. Ljósmynd/Wikipedia.org

Með þessu vill NASA stunda æfingar og þróa þá tækni sem er nauðsynleg svo hægt verði að senda geimfara til Mars. 

BBC hafði samband við NASA vegna ummæla Anders en engin svör hafa borist.

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, Bill Anders úr áhöfn Apollo 8 og …
Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur, Bill Anders úr áhöfn Apollo 8 og Dr. Ted Foss, yfirmaður jarðfræðisviðs hjá NASA. Myndin er tekin sumarið 1967 við Nautagil. Ljósmynd/Wikipedia.org

Anders, sem er 85 ára gamall, segist vera mikill stuðningsmaður ómannaðra geimferða sem hann segir að séu einstakar, en helst vegna þess að þær eru mun ódýrari. Hann bætir við að almenningur sé ekki hlynntur því að setja mikla fjármuni í mjög dýrar geimferðir þar sem lifandi geimfarar eiga í hlut.

„Hvað er svona áríðandi? Hvað er það sem þrýstir á okkur að fara til Mars,“ sagði Anders og bætti við: „Ég held að almenningur sé ekki það áhugasamur.“

mbl.is