Facebook „í grundvallaratriðum“ breyst

Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook.
Mark Zuckerberg, forstjóri Facebook. AFP

Mark Zuckerberg, forstjóri og stofnandi Facebook, segir að þessi vinsælasti samfélagsmiðill í heimi hafi „í grundvallaratriðum“ breyst og einbeiti sér núna í auknum mæli að því að vernda kerfi sín gagnvart misnotkun og misvísandi upplýsingum.

Zuckerberg segir í áramótapistli sínum að árið hafi verið róstusamt vegna þeirrar gagnrýni sem Facebook hefur fengið vegna lélegrar gagnaverndar og vegna rannsóknar stjórnvalda.

Hann kveðst engu að síður vera „stoltur af þeim framförum sem við höfum náð“.

„Hvað mig varðar hefur árið 2018 snúist um að takast á við sum af mikilvægustu málefnunum sem steðja að samfélaginu okkar – hvort sem það snýst um að koma í veg fyrir afskipti í kringum kosningar, að stöðva útbreiðslu hatursorðræðu og misvísandi upplýsinga, sjá til þess að fólk hafi stjórn á upplýsingum eða að tryggja að þjónusta okkar bæti líðan fólks,“ skrifaði hann á Facebook-síðu sína.

„Við erum allt öðruvísi fyrirtæki en við vorum árið 2016 eða jafnvel fyrir ári. Við höfum í grundvallaratriðum breytt erfðaefni okkar með því að einbeita okkur meira að því að koma í veg fyrir að kerfin okkar skaðist og við höfum á kerfisbundinn hátt fengið stóran hluta fyrirtækisins okkar til að fyrirbyggja skaða.“

Hann sagði að yfir 30 þúsund manns starfi núna að öryggismálum hjá fyrirtækinu, auk þess sem Facebook hafi fjárfest fyrir milljarða dala í öryggismálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert