New Horizon myndaði Ultima Thule

AFP

Mannlausa geimfarið New Horizon hefur náð sambandi við jörðu til að staðfesta að það hafi flogið framhjá fjarlægasta stað sólkerfisins, Ultima Thule, í um 6,4 milljarða kílómetra frá jörðu. BBC greinir frá.

Geimfarið tók fjölda mynda gerði athuganir á ferð sinni framhjá fyrirbærinu sem það mun senda til jarðar á næstu mánuðum. Það tók skilaboðin sex klukkutíma og átta mínútur að ferðast frá Ultima Thule til jarðar.

Fyrstu skilaboðin voru einungis hljóðskýrslur en búist er við að einhverjar myndir berist í dag, sem munu gera vísindamönnum kleift að átta sig betur á þeim upplýsingum sem New Horizon fangaði.

Alan Stern, sem fer fyrir teymi vísindamanna, sem fylgjast með ferðum geimfarsins, segir gögnin koma til með að gagnast vísindamönnum við rannsóknir á upphafi sólkerfis okkar.

„Allt sem við munum komast að um Ultima, frá samsetningu þess til jarðfræði, hvernig það safnaðist saman, hvort það hefur fylgihnetti og gufuhvolf, mun hjálpa okkur að skilja það hvernig sólkerfi okkar mótaðist. Eitthvað sem öll önnur fyrirbæri sem við höfum flogið í kringum og lent á geta ekki sagt okkur, vegna þess að þau eru of stór eða of heit. Ultima er einstakt fyrirbæri,“ segir Stern í samtali við BBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert