Íslenskt verkefni hlaut 5,5 milljóna evra styrk

Dr. Paolo Gargiulo er verkefnisstjóri íslenska hluta verkefnisins. Hann er …
Dr. Paolo Gargiulo er verkefnisstjóri íslenska hluta verkefnisins. Hann er einnig dósent við tækni- og verkfræðideild og forstöðumaður Taugalífeðlisfræðistofnunar Háskólans í Reykjavík Ljósmynd/Aðsend

Íslenskt rannsóknarverkefni hlaut um áramótin 5,5 milljóna evra styrk til að þróa tækni til að rækta brjósk fyrir hnéliði. „Einstaklingsmiðuð læknismeðferð er það sem koma skal,“ segir verkefnisstjórinn dr. Paolo Gargiulo sem er einnig dósent við tækni- og verkfræðideild og forstöðumaður Taugalífeðlisfræðistofnunar Háskólans í Reykjavík.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Háskólanum í Reykjavík.

750 milljónir króna á fjögurra ára tímabili

Rannsóknarverkefnið er að hluta íslenskt og nefnist sá hluti verkefnisins Restore. Auk íslenskra vísindamanna munu vísindamenn frá Portúgal, Þýskalandi, Finnlandi og Ítalíu koma að rannsókninni. Styrkurinn sem verkefnið hlaut er 5,5 milljónir evra yfir fjögurra ára tímabil, jafngildi rúmlega 750 milljóna íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Verkefnið snýst um að þróa nýja meðferð við skemmdum í liðbrjóski í hnjám með því að beita vefjaverkfræðilegum aðferðum. Hlutverk íslenska teymisins verður að gera gagnagrunn út frá segulómun og tölvusneiðmyndum. Gagnagrunnurinn verður notaður til að búa til leiðbeiningar um hvernig má haga meðferð í samræmi við þarfir hvers og eins sjúklings.

Skemmdir á hnjám algengt heilsufarsvandamál

Lið- og hnéskiptiaðgerðir eru algengar enda eru slitgigt og aðrar skemmdir á hnjám algeng heilsufarsvandamál, sérstaklega vegna offitu, segir í tilkynningunni.

„Skaðinn á hnjám er tvenns konar, annars vegar er hrörnun þar sem skipta þarf um hnélið og hins vegar skaði í kjölfar meiðsla eða slysa þar sem oft er ekki nauðsynlegt að skipta út öllum liðnum heldur er hægt að gera við þann skaða sem orðinn er,“ er útskýrir Paolo og bætir því við að enginn vilji hafa gervihné eða aðskotahlut í líkamanum.

Þurfum að finna upp nýjar aðferðir

Markmiðið með Restore-verkefninu er að þróa meðferð þar sem búinn verður til brjóskvefur sem hægt verður að koma fyrir í skaddaða hnénu í stað brjósksins sem er skemmt.

„Brjóskið í hnénu hefur mjög takmarkaða viðgerðarhæfileika, ólíkt öðrum vefjum líkamans eins og beinvef og vöðvum. Aðgerðir sem eru framkvæmdar á sjúkrahúsum í dag fela í sér að flytja brjósk frá öðrum stað í líkamanum í skemmda svæðið eða bora inn í beinið með það að markmiði að fá frumur í beinmergnum til að skríða inn í sárið og hefja viðgerð. Hvorug þessara leiða gefur nægilegan góðan árangur fyrir sjúklinginn og þess vegna þarf að finna aðrar leiðir til að laga skemmdir í brjóski,“ er einnig haft eftir Paolo í tilkynningunni.

Umsóknin um styrkinn var valin af alþjóðlegri dómnefnd sem skipuð er fræðimönnum frá evrópskum háskólum sem úthluta verkefnum styrki fyrir Horizon 2020-áætlun Evrópusambandsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert