You Tube herðir birtingarreglur

Það er stórhættulegt að borða þvottaefnispúða.
Það er stórhættulegt að borða þvottaefnispúða. Wikipedia

YouTube hefur bannað birtingu myndskeiða sem sýna hrekki sem eru hættulegir eða valda fólki vanlíðan. Bannið var sett í kjölfar birtingar myndskeiða af alls konar áskorunum sem í einhverjum tilvikum hafa reynst banvænar eða fólk hefur slasast við.

Google, sem á YouTube, segir að slíkt efni eigi ekkert erindi á síðuna en svo virðist sem minna sé um efndir og eftirlit en til stóð. 

BBC vísar í frétt á Buzzfeed þar sem fram kemur að myndskeið sem alls ekki ættu heima inni á YouTube, ef reglunum væri framfylgt, væru þar enn. Mörg þeirra njóta mikilla vinsælda og hafa milljónir horft á þau. 

Sem svar við þessu hefur You Tube hert reglunar enn frekar og hrekkir sem geta valdið börnum tilfinningalegu uppnámi eru bannaðir. Stjórnendur You Tube segja að reglurnar hafi verið unnar í nánu samstarfi við barnasálfræðinga sem fóru yfir það með starfsfólki You Tube hvað gæti valdið börnum verulegri vanlíðan. Svo sem að barn sé látið halda að foreldrar þess séu látnir. 

Í maí var tvítug kona, Monalisa Perez, dæmd í hálfs árs fangelsi fyrir að hafa skotið unnusta sinn til bana. Parið hafði vonast til þess að myndskeiðið af því þegar hún skaut hann myndi ná miklum vinsældum á You Tube en hann var með alfræðiorðabók sér til varnar. Því miður var það ekki næg vörn. 

Jafnframt hefur eitrunartilvikum fjölgað mjög í Bandaríkjunum eftir að fólk tók upp á því að borða þvottaefnispúða og birta myndskeið af átinu á You Tube.

Ný áskorun sem byggir á atriði úr Netflix-þáttaröðinni Birdbox er það nýjasta á YouTube en þar er fólk að keyra bifreið með bundið fyrir augun. Að minnsta kosti ein manneskja hefur lent í bílslysi við þessa iðju.

mbl.is