Slagsmál í BT opnuðu augun

Þorsteinn Kristjáns Jóhannsson framhaldsskólakennari.
Þorsteinn Kristjáns Jóhannsson framhaldsskólakennari. Kristinn Magnússon

„Um leið og ég sá fyrsta tölvuleikjaspilið, 9 ára á Reykjavíkurflugvelli, var ég uppnuminn og fór að bera út blöð til að geta farið í tölvuleikinn. Tíu eða ellefu ára stóðst ég ekki mátið og eyddi á einum degi öllum blaðburðarpeningunum í leiknum, það blundaði því sterkt í mér að ánetjast tölvum,“ segir Þorsteinn Kristjáns Jóhannsson framhaldsskólakennari sem uppgötvaði þegar hann var kominn á fertugsaldur að hann þurfti hjálp vegna óhóflegrar tölvunotkunar en þá setti hann í samhengi ýmislegt sem hann hafði látið sitja á hakanum í lífinu og vanrækt til þess að geta eytt sem mestum tíma í tölvunni. Síðan þá, í rúm 10 ár, hefur hann haldið fyrirlestra og námskeið um áhrif óhóflegrar tölvunotkunar, í grunn- og framhaldsskólum, starfsendurhæfingum eins og Janus, Hringsjá og Hugarafli, frætt og miðlað af sinni eigin reynslu. 

Í umfjöllun Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins um skjánotkun rekur Þorsteinn hvernig tölvan hafi stýrt lífi hans, hann kláraði ekki nám og fannst erfitt að sinna vinnu þar sem hann þurfti þá að hætta í tölvunni. Hann var 33 ára gamall þegar augu hans lukust upp.

„Ég var fluttur aftur til foreldra, skuldugur upp fyrir haus, hafði flosnað fjórum sinnum upp úr námi eftir grunnskóla, var að sjálfsögðu ekki í sambúð því ekkert samband lifði af tölvufíkn mína, og barnlaus. Ég átti engar eignir nema tölvuna mína. Það hentaði mér þó vel að ég vann í BT og var þar yfir tölvuleikjadeildinni, enda voru þeir fljótir að sjá að ég vissi allt um tölvuleiki.“ 
Þessir hlutir breyttust hratt eftir að Þorsteinn tók á notkun sinni og átta árum síðar hafði hann verið í sambúð í átta ár, átti barn, bjó í eigin húsnæði og hafði lokið meistaranámi í kennslufræðum, með grunnskóla- og framhaldsskólaréttindi. Tveimur árum síðar hafði hann klárað diplóma í stjórnunarfræði og sinnt rafvirkjanámi meðfram starfi.

Miðnæturopnun opnaði augun

„Ég man vel þegar augu mín lukust upp. Það var miðnæturopnun í BT í Smáralind og á henni sá ég fullt af fullorðnum karlmönnum sem biðu þarna gráir í framan í röðinni eftir nýrri tölvuleikjauppfærslu. Stelpan sem var á kassanum flúði inn á lager því það urðu slagsmál um að ná eintaki og ég kom hálfrispaður heim og skildi ekkert hvað gerðist. Ég fór þá að hugsa hvort það gæti verið að þetta væri einhvers konar fíkn – ég væri ekki bara svona brjálæðislegur áhugamaður. Ég ákvað að prófa að slökkva á tölvunni og fékk bara þunglyndiskast, varð þvalur, átti erfitt með svefn, vaknaði með höfuðverki og ógleði, bara vegna þess að ég var ekki fyrir framan skjáinn. Þarna ákvað ég að taka þetta föstum tökum, taka tölvuna úr fyrsta sæti, fór að spá í hvernig ég vildi hafa líf mitt og fór í huganum yfir aðra hluti lífsins sem ég hafði eiginlega misst af.“

Þorsteinn og Gunnar Örn Ingólfsson sálfræðingur hafa í samvinnu haldið námskeið fyrir fullorðna þar sem ofnotkun þeirra á tölvum hefur komið niður á lífi þeirra og hafa þau námskeið verið ókeypis fyrir einstaklinga en stefnt er að því að halda einnig námskeið fyrir börn og unglinga og fræðslunámskeið fyrir foreldra um tölvuuppeldi. Þorsteinn á sjálfur tvo drengi, 6 og 10 ára. 
„Það var ekki fyrr en í kringum 2000 sem ég fór að heyra raddir um að kannski þyrfti að setja mörk á tölvutíma barna en þær voru ekki margar. Fólk réttlætti frekar tölvunotkun barna sinna með að þetta væri framtíðin, var stolt af því hvað barnið var klárt í þessu, þetta væri helsta áhugamál þess. En á móti kemur að barn sem er mikið í tölvu hefur oft ekki fengið aðstoð eða tíma til að rækta önnur hugðarefni og því hefur það einfaldlega ekki fengið að kynnast mörgu öðru.

Þorsteinn tekur fram að það sé ekki til að fá fólk til að hætta að nota tölvur sem hann haldi fyrirlestra og námskeið heldur sé tilgangurinn að hjálpa fólki að nota skjátæki á uppbyggjandi hátt og koma í veg fyrir að ofnotkun á þeim hafi þau áhrif að fólk missi af lífinu.
„Skjátæki eru ekki slæm, þessi tækni er frábær, ég kynntist konunni minni til dæmis í gegnum netið en þegar tækin eru í fyrstu sætunum þá snýr þetta öðruvísi að fólki. Ég hafði sjálfur þarna ekki bara vanrækt menntun og starf heldur líka vini, tómstundir og önnur áhugamál og einangrað mig. Ég hafði ekki lifað lífinu til fulls.“

Umfjöllunina má lesa í heild í Sunnudagsblaði Morgublaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert