„Blóðrauður ofurmáni“

Þó svo ekki hafi viðrað vel til þess að sjá tunglmyrkvann í nótt á Íslandi þá sást hann vel annars staðar í heiminum. 

Almyrkvi á tungli hefur ekki sést hér á landi síðan 28. september 2015. Næst sést almyrkvi á tungli frá Íslandi 16. maí 2022.

Tunglmyrkvinn hófst klukkan 02:37 en milli klukkan 04:41 og 05:43 var tunglið almyrkvað og þá rauðleitt á himninum. Myrkvinn á sér stað á næst nálægasta fulla tungli ársins.

Tunglmyrkvar verða þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu. Tunglmyrkvar verða því aðeins þegar tungl er fullt og gengur inn í skugga Jarðar.

Þrátt fyrir það verða tunglmyrkvar ekki mánaðarlega vegna þess að brautarplan tunglsins og brautarplan jarðar eru ósamsíða.

Tunglbrautin hallar um 5° frá braut jarðar og vegna hallans fellur skuggi jarðar yfirleitt undir eða yfir tunglið.

Tunglmyrkvar sjást frá allri næturhlið jarðar, ólíkt sólmyrkvum sem sjást aðeins frá takmörkuðu svæði á jörðinni, samkvæmt Stjörnufræðivefnum.

„Þegar tunglið er inni í alskugga jarðar fær það á sig blóðrauðan blæ. Þennan lit má rekja til allra sólarlaga og sólarupprása sem umlykja jörðina á þessu augnabliki,“ segir á Stjörnufræðivefnum.

Sólarljósið berst í gegnum lofthjúp jarðar sem tvístrar rauða litnum síðar en hinum litunum. Ljósið berst til tunglsins og gefur því rauðan lit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert