Instagram, Messenger og WhatsApp í eitt

Með þessu er talið að Zuckerberg vilji gera notendur enn …
Með þessu er talið að Zuckerberg vilji gera notendur enn háðari kerfum í eigu Facebook og koma þannig í veg fyrir að notendur snúi sér til keppinauta á borð við Apple og Google. AFP

Til stendur að sameina skilaboðaþjónustu smáforritanna Instagram, WhatsApp og Facebook Messenger í eitt smáforrit, samkvæmt því sem New York Times hefur eftir heimildarmönnum innan herbúða Facebook.

Áætlunin mun vera runnin undan rifjum Marks Zuckerberg, stofnanda og framkvæmdastjóra Facebook, og vinna þúsundir starfsmanna Facebook nú að því að endurskipuleggja grundvallarvirkni forritanna svo að hægt verði að sameina skilaboðaforritin í eitt.

Forritin þrjú munu þó standa áfram sem einstök smáforrit hvert fyrir sig.

Þróunin er skammt á veg komin enn sem komið er, en stefnt er á að henni ljúki í lok þessa árs eða í byrjun árs 2020.

Þá mun Zuckerberg hafa farið fram á að forritin yrðu öll dulkóðuð frá A til Ö svo að aðeins þeir sem taka þátt í samtölum innan skilaboðaforritanna hafi að þeim aðgang.

Með þessu er talið að Zuckerberg vilji gera notendur enn háðari kerfum í eigu Facebook og koma þannig í veg fyrir að notendur snúi sér til keppinauta á borð við Apple og Google.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert