LED-lýsing getur haft áhrif á svefn

Sævar Helgi Bragason.
Sævar Helgi Bragason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sævar Helgi Bragason veit sitthvað um áhrif LED-lýsingar og segir mikilvægt að velja perur sem gefi hlýja lýsingu. Hvaða áhrif hefur öll þessi lýsing og hvar er hana að finna?

Einu sinni unnum við í takt við árstíðirnar og það þurfti að nota birtuna þegar hún gafst. Nú stunda börn æfingar á flóðlýstum fótboltavöllum og göngustígar sem heimili eru vel upplýst. Gömlu glóperurnar hafa verið bannaðar og nota flestir LED-perur sem eru orkusparandi og eru orðnar ódýrari en þegar þær komu fyrst fram. Mikið hefur verið rætt og skrifað um áhrif bláa ljóssins frá tölvuskjáum og símum en hvað með ljósin heima hjá okkur? Sævar Helgi hefur lesið sér heilmikið til um áhrif lýsingar, m.a. því hann langar að sjá sem mest af stjörnuhimninum hvar sem hann er. Eitt af því sem hefur verið rannsakað er áhrif blárrar birtu en hún truflar svefn.

„Það hafa verið gerðar rannsóknir í Harvard sem dæmi, svo er bandaríska læknafélagið að tala um þetta líka. Það er þessi bjarta bláa birta sem við notum og kemur frá skjám og meira að segja stundum þegar fólk er að setja upp LED-lýsingar heima eða jafnvel úti við. Þá er oft ekki verið að velja þær perur sem gefa rétt litahitastig sem gætu haft lítil áhrif á líkamsklukkuna okkar og þar af leiðandi heilsu. Bláa birtan getur raskað líkamsklukkunni í klukkutíma til þrjá í einhverjum tilvikum,“ segir hann og ítrekar mikilvægi þess að fólk noti ekki snjallsímana í að minnsta kosti klukkutíma fyrir svefn og skoði þá ekki á nóttunni.

„Ef fólk er að LED-væða heimili sitt ætla ég að vona að það velji perur sem gefa hlýja birtu frekar en kalda birtu. Það er þá sú birta sem hefur minni áhrif á heilsu okkar,“ segir hann en perur sem eru 2.700 Kelvin eða minna gefa frá sér gulari birtu.

„Í sumum borgum erlendis er verið að LED-væða og allt of bláar perur hafa verið valdar,“ útskýrir hann en það er umhugsunarefni.

Stilling klukkunnar er málamiðlun

„Í umræðunni hljómar oft eins og það sé bara sólargangurinn og birtan frá sólinni sem stýri líkamsklukkunni okkar þegar það er alveg augljóst að það er svo margt í okkar nútímasamfélagi sem hefur áhrif á hana eins og koffínneysla að kvöldi til, ef við borðum of mikið of seint og að sjálfsögðu þessi raflýsing sem var ekki hjá okkur hérna lengst af þann tíma sem við höfum verið að þróast á jörðinni. Og þegar við notuðum lýsingu vorum við að nota frekar rauðleita lýsingu frá eldi og olíulömpum og einhverju slíku sem er allt annað. Fyrir mér hljómar þetta eins og töfralausn, að við þurfum bara að breyta klukkunni og þá lagist allt hérna, skammdegisþunglyndi og fleira. Ég er ekki alveg sannfærður um það,“ segir Sævar Helgi.

„Stilling klukkunnar er bara málamiðlun. Það er ekki hægt að stilla hana nákvæmlega eftir sólargangi því jörðin ferðast mishratt í kringum sólina þannig að það verður alltaf sveifla sama hvað við gerum,“ segir hann og langar að minnast á eitt skemmtilegt atriði að lokum.

30 stundir í sólarhringnum!

„Jörðin er að hægja á snúningi sínum út af sjávarföllum sem koma til af tunglinu; tunglið er að hægja á jörðinni, sem þýðir að dagurinn er að lengjast. Eftir um 400 milljónir ára verða 26 klukkustundir í einum sólarhring og þá þarf nú heldur betur að breyta klukkunni! Og sömuleiðis eftir milljarð ára, þá verða um 30 klukkutímar í einum sólarhring og þá þarf aftur að breyta klukkunni.“

Viðtalið birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina og er hluti af stærri umfjöllun um klukkuna.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert