Forn steinn af jörðu finnst á tunglinu

Árekstur loftsteins er sagður hafa valdið því að steinninn barst …
Árekstur loftsteins er sagður hafa valdið því að steinninn barst til tunglsins, sem var á þeim tíma þrisvar sinnum nær jörðu en það er í dag. AFP

Steinn sem kann að reynast með þeim elstu sem mótast hafa á jörðinni fannst á allóvenjulegum stað. Steinninn, sem er um 2 sm að stærð, fannst á tunglinu þar sem hann var greyptur inn í stærra grjót sem geimfarar Apollo-geimfarsins tóku með sér til jarðar sem sýni.

Vísindatímaritið Science segir rannsókn vísindamanna hafa leitt í ljós að áðurnefndur steinn sé fjögurra milljarða ára gamalt steinbrot úr jörðu.

„Þetta er mjög áleitinn fundur, en kann að reynast rétt,“ hefur tímaritið eftir Munir Humayun, geimefnafræðingi við Florida State University.

David Kring, tungljarðfræðingur við Lunar and Planetary Institute í Houston og einn höfunda skýrslunnar, segir fundinn hjálpa til að við að gefa skýrari mynd af jörðinni í árdaga og þeirri þróun sem átti sér stað er líf kviknaði þar fyrst.  

Segir King árekstur loftsteins hafa valdið því að steinninn barst til tunglsins sem var á þeim tíma þrisvar sinnum nær jörðu en það er í dag. Brotið greypist síðar inn í brotaberg á tunglinu og sneri svo aftur til jarðar með Apollo 14 árið 1971.

Nokkur ár eru frá því Kring og teymi hans fundu fyrst brot úr loftsteinum í svipuðu tunglgrjóti og segir hann það því hafa verið rökrétt framhald að leita að steini sem borist hefði frá jörðu.

Ítarleg skoðun á innihaldsefnum steinsins bendir til þess að hann hafi myndast á vatnsríku svæði og við þrýsting sem annaðhvort jafngildi 19 km dýpi á jörðunni eða 170 km dýpi á tunglinu.

Craig O’Neill, jarðeðlisfræðingur við Macquarie-háskólann í Sydney í Ástralíu, telur jörðina líklegri mótunarstað, þar sem 170 km dýpi á tunglinu sé „bilað“ dýpi og langt undir skorpu tunglsins.

Steinninn er þó ekki sá elsti sem vitað erum um, því sirkonkristallar sem fundist hafa í vesturhluta Ástralíu eru taldir vera allt að 4,4 milljarða ára gamlir.

mbl.is

Bloggað um fréttina