Apple búið að laga FaceTime gallann

„Við biðjum viðskiptavini okkar sem urðu fyrir þessu og höfðu …
„Við biðjum viðskiptavini okkar sem urðu fyrir þessu og höfðu áhyggjur af þessum öryggisgalla einlæglega afsökunar,“ segir í tilkynningu Apple. AFP

Apple tilkynnti í dag að fyrirtækið væri búið að laga hugbúnaðargalla í FaceTime-forritinu, sem gerði iPhone-notendum kleift að heyra í og sjá viðmælendur sína áður en þeir svöruðu símtölum frá þeim.

Eftir að greint var frá öryggisgallanum fyrr í vikunni, lokaði Apple fyrir hópsamtals-möguleikann í FaceTime-forritinu, en nú hefur vandinn verið lagfærður.

Fram kemur í tilkynningu frá fyrirtækinu að hugbúnaðaruppfærsla verði gefin út í næstu viku og þá verði aftur hægt að hringja hópsímtöl í hljóði og mynd í gegnum FaceTime.

„Við biðjum viðskiptavini okkar sem urðu fyrir þessu og höfðu áhyggjur af þessum öryggisgalla einlæglega afsökunar,“ segir í tilkynningu Apple.

Þá þakkar fyrirtækið Thompson-fjölskyldunni í Arizona-ríki í Bandaríkjunum sérstaklega fyrir að hafa látið vita af þessum hugbúnaðargalla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert