„Rafíþróttir komnar til að vera“

Danir eru með fremstu rafíþróttaþjóðum heims og er Jens Christian …
Danir eru með fremstu rafíþróttaþjóðum heims og er Jens Christian staddur hér á landi til þess að halda fyrirlestur á UT-messunni í dag. Ljósmynd/Aðsend

„Undanfarin tíu ár hefur fjöldi fólks unnið að uppbyggingu grasrótar rafíþrótta í Danmörku, og svo þegar Astralis varð besta lið í heimi í Counter Strike varð sprenging í rafíþróttum í Danmörku. Ég held það hafi verið punkturinn yfir i-ið,“ segir Jens Christian Ringdal, fyrrverandi formaður danska rafíþróttasambandsins og einn stofnenda alþjóðlega rafíþróttasambandsins.

Danir eru með fremstu rafíþróttaþjóðum heims og er Jens Christian staddur hér á landi til þess að halda fyrirlestur í Origo í tengslum við UT-messunna í dag.

Fimmti hver Dani spilar rafíþróttir og danska liðið Astralis fyllir heilu íþróttaleikvangana á heimaleikjum sínum. „Við höfum mjög sterkan grunn, en í Danmörku eru rafíþróttaklúbbar bæði í skólum og á vinnustöðum. Næstum öll dönsk ungmenni á aldrinum 13 til 19 ára spila tölvuleiki, eða 96% drengja og 79% stúlkna,“ segir Jens Christian í samtali við mbl.is.

Ekkert því til fyrirstöðu að rafíþróttir verði hluti af hefðbundnum íþróttafélögum

Hann segir hlutfallið líklega ekki langt frá þessu á Íslandi og að hér séu góðir möguleikar á uppbyggingu rafíþrótta. Á Íslandi, líkt og þekkist á hinum Norðurlöndunum, sé mikil félagamenning og að ekkert sé því til fyrirstöðu að rafíþróttir verði hluti af hefðbundnum íþróttafélögum og að þær verði stundaðar meðfram almennri íþróttaiðkun.

„Ísland hefur líka það fram yfir Danmörku að vera staðsett í miðju Atlantshafi, svo hér er hægt að keppa bæði við Norður-Ameríku og meginland Evrópu,“ segir Jens Christian.

Jens Christian er reynslubolti í rafíþróttaheiminum.
Jens Christian er reynslubolti í rafíþróttaheiminum. Ljósmynd/Aðsend

Auk þess að fjalla um árangur Dana innan rafíþróttaheimsins talar Jens Christian um konur og stelpur innan rafíþrótta og hvernig sé hægt að fá þær til að taka þátt í skipulögðu rafíþróttastarfi. Hann segir Fortnite gott dæmi um leik sem stelpur finna sig í.

Leikir verði að vera aðgengilegir á mismunandi tækjum til að ná vinsældum

„Ég held að styrkur Fortnite felist í því að hægt er að spila hann í snjallsímum, borðtölvum og leikjatölvum. Því tæknilegra sem þetta verður, þeim mun líklegra er að strákar séu stærstur hluti spilara. Þegar leikirnir eru komnir í snjallsíma og spjaldtölvur taka stelpurnar meiri þátt,“ segir Jens Christian.

„Þegar horft er til framtíðar held ég að það verði breytingar á vettvangi rafíþrótta, og að þeir framleiðendur sem vilja að leikir þeirra nái vinsældum verði að gera þá aðgengilega á mismunandi tækjum. Borðtölvan er enn aðalvettvangur rafíþrótta, en ég held að það komi til með að breytast og að við munum fljótlega sjá rafíþróttamót fara fram á snjallsímum.“

Jens Christian segir rafíþróttir komnar til að vera og að þær ætti að viðurkenna sem slíkar. „Við ættum að draga lærdóm úr hefðbundnum íþróttum og yfirfæra í rafíþróttirnar og öfugt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert