Sjálfsvíg miklu algengari meðal karla

Sjálfsvíg eru algengari meðal karla en kvenna í heiminum.
Sjálfsvíg eru algengari meðal karla en kvenna í heiminum. AFP

Karlar eru miklu líklegri til þess að taka eigið líf en konur sama hvar þeir búa í heiminum og í öllum aldurshópum fyrir utan 15-19 ára. Tíðni sjálfsvíga hefur dregist mjög saman á undanförnum áratugum og er það rakið til forvarna, samkvæmt því sem kemur fram í nýrri kanadískri rannsókn.

Samkvæmt áætlunum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) falla árlega um 800 þúsund manns fyrir eigin hendi. Þrátt fyrir að 6,7% fleiri hafi framið sjálfsvíg árið 2016 (817 þúsund manns) en árið 1990 þá hefur jarðarbúum fjölgað mjög á sama tímabili þannig að hlutfall sjálfsvíga fór úr 16,2 dauðsföllum á hverja 100 þúsund íbúa í 11,2 dauðsföll. Þetta er 32,7% fækkun. 

Talið er að hægt sé að afstýra sjálfsvígum meðal annars með forvörnum og að sögn Heather Orpana, rannsakanda hjá landlæknisembætti Kanada, sýnir rannsóknin að með því að leggja enn meiri áherslu á forvarnir megi draga enn frekar úr sjálfsvígum.

Bent er á að á nokkrum svæðum heimsins eru sjálfsvíg ein helsta ástæða dauðfalla fyrir aldur fram. Mikill munur er á milli kynjanna en 15,6 karlar af hverjum 100 þúsund falla fyrir eigin hendi á meðan sjö konur af hverjum 100 þúsund fremja sjálfsvíg.

Eitt af því sem kemur fram í rannsókninni er að sama tíma hefur aðgengi að heilbrigðisþjónustu aukist og eins búi færri við sára fátækt. Þrátt fyrir fækkun sjálfsvíga í ákveðnum löndum er aukning annars staðar. 

Meira um rannsóknina

mbl.is