Ragnheiður hlýtur UT-verðlaun Skýs

Ragnheiður H. Magnúsdóttir tók við UT-verðlaunum úr hendi Guðna Th. …
Ragnheiður H. Magnúsdóttir tók við UT-verðlaunum úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Ragnheiður H. Magnúsdóttir hlaut UT-verðlaun Skýs 2019 er þau voru afhent við hátíðlega athöfn í Hörpu í dag. Ragnheiður var framkvæmdastjóri Hugsmiðjunnar í tæp 6 ár, sinnti breytingarstjórnunarverkefni hjá Marel og er í dag forstöðumaður framkvæmda hjá Veitum.

Segir valnefnd í rökstuðningi sínum að Ragnheiður hafi, að öðrum ólöstuðum, verið í fararbroddi þegar komi að því að halda mikilvægi upplýsingatæknigeirans á lofti og mikilvægi fjölbreytileika í þeim geira. 

Verðlaunin voru nú veitt í 10. skipti og var það Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sem afhenti þau að þessu sinni.

Jafnframt veitti forseti Íslands þrenn önnur verðlaun við þetta tækifæri; UT-stafræna þjónustan, UT-sprotinn og UT-fyrirtæki ársins.

UT-fyrirtæki ársins var valið Nox Medical, sem hefur skapað sér sérstöðu á sviði svefnrannsókna og unnið til fjölda verðlauna fyrir rannsóknir sínar.

Leggja.is hlaut verðlaunin fyrir stafræna þjónustu og UT-sprotann hlaut Syndis, sem hefur verið áberandi á sviði öryggismála og fundið stóra galla í vörum og þjónustu stórra og þekktra fyrirtækja, nú síðast í snjallúrum barna.

mbl.is