Nýtt hitamet í Ástralíu

AFP

Aldrei áður hefur sumarið verið jafn hlýtt og í ár í Ástralíu. Hundruð hitameta hafa fallið víðs vegar um landið undanfarna þrjá mánuði, samkvæmt upplýsingum frá áströlsku veðurstofunni.

Meðalhitinn mældist 2,14 gráðum fyrir ofan meðaltal og fimm dagar í janúar eru þeir heitustu sem hafa mælst í landinu frá upphafi mælinga. Skógareldar, rafmagnsleysi og mikil aukning innlagna á sjúkrahús er meðal þess sem hefur fylgt hitabylgjunni. Eins hafa fjölmargir villtir hestar drepist, leðurblökur og fiskur. 

Loftslagssérfræðingur sem BBC ræddi við, Blair Trewin, segir áhrifanna gæta alls staðar en meðalhitinn í Ástralíu að sumarlagi er 27,5 gráður á celsíus. 

BBC tekur nokkur dæmi af áhrifum hitabylgjunnar: Í Tasmaníu börðust slökkviliðsmenn við skógarelda á svæðum sem eru á heimsminjaskrá. Loftkælingar höfðu vart undan í Melbourne og endaði með því að rafmagn sló út í borginni. Yfir 90 villihestar drápust við uppþornað vatnsból á verndarsvæðinu Northern Territory.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert