„Blóðskimun til bjargar“ fær 300 milljónir

Rannsóknarhópurinn á bak við „Blóðskimun til bjargar“, sem er ein …
Rannsóknarhópurinn á bak við „Blóðskimun til bjargar“, sem er ein umfangsmesta vísindarannsókn sem farið hefur fram í heiminum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Rannsóknarhópur undir forystu Sigurðar Yngva Kristinssonar, prófessors í blóðsjúkdómum við læknadeild Háskóla Íslands og sérfræðings við Landspítala, hefur hlotið 300 milljóna króna styrk til þess að byggja upp einstakt lífssýnasafn í tengslum við þjóðarátakið „Blóðskimun til bjargar“, eina umfangsmestu vísindarannsókn sem farið hefur fram í heiminum. Alls taka  80 þúsund manns á Íslandi þátt í rannsókninni.

Styrkurinn er veittur í gegnum Black Swan Research Initiative, verkefni innan góðgerðarsamtakanna International Myeloma Foundation (IMF). Í tilkynningu frá Háskóla Íslands segir að um sé að ræða elsta og stærsta sjóð í heimi sem styrkir sérstaklega rannsóknir á mergæxlum en markmið hans er að stuðla að lækningu mergæxlis og bættum lífsgæðum fyrir mergæxlissjúklinga bæði með rannsóknum, fræðslu, stuðningi og ráðgjöf.

Sjúkdómurinn er ólæknandi og árlega greinast um 25 manns með sjúkdóminn hér á landi og alls um 200 þúsund manns í heiminum öllum. Samfara auknum rannsóknum á sjúkdómnum og nýjum og betri lyfjum hafa horfur sjúklinga með mergæxli hins vegar batnað gríðarlega síðastliðin ár.

80 þúsund manns samþykktu þátttöku í rannsókninni. Rúmum tveimur árum síðar hafa tæplega 50 þúsund sýni verið send til rannsóknarhópsins til skimunar fyrir forstigi mergæxlis. U.þ.b. 2.200 manns hafa greinst með forstig mergæxlis, þar af hafa um 90 manns greinst með svokallað mallandi mergæxli, sem er eins konar millistig sjúkdómsins í þróun hans frá forstigi að mergæxli. Í gegnum rannsóknina hafa 16 manns greinst með mergæxli og tengda sjúkdóma og hafa þurft á meðferð að halda og eru komnir í meðferð á Landspítala.

Styrkurinn nú gerir Sigurði Yngva Kristinssyni og samstarfsfólki hans kleift að byggja upp einstakt lífssýnasafn í kringum verkefnið Blóðskimunar til bjargar. „Við munum geta safnað lífssýnum, eins og blóði og beinmerg, úr þátttakendum sem hægt er að nota í frekari rannsóknir varðandi greiningar og horfur á forstigi mergæxlis. Þannig verður hægt að nota nýja tækni þegar hún verður til og sækja þessi sýni í frystinn. Einnig munum við geta beitt mun næmari aðferðum til að greina með mikilli nákvæmni mergæxlisfrumur þótt þær séu eingöngu ein af milljón, bæði í beinmerg og blóði,“ er haft eftir Sigurði Yngva í tilkynningu. 

Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við æknadeild Háskóla Íslands …
Sigurður Yngvi Kristinsson, prófessor í blóðsjúkdómum við æknadeild Háskóla Íslands og sérfræðingur við Landspítala. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert