Pí-met slegið á pí-deginum

Emma Haruka Iwo, heimsmethafi í pí-aukastöfum.
Emma Haruka Iwo, heimsmethafi í pí-aukastöfum. Ljósmynd/Google

Gildi fastans pí hefur verið reiknað upp á 31 billjón (þúsund milljarða) aukastafa. Er það stórbæting á fyrra meti, sem var 22 billjónir aukastafa.

Emmu Haruka Iwao, starfsmanni Google í Japan, er eignaður heiðurinn en hún naut aðstoðar risavaxins tölvuvers fyrirtækisins. Sagt var frá afrekinu í fréttabréfi Google sem kom út í dag á pí-deginum, 14. mars (3.14 í amerískri framsetningu, en það eru fyrstu stafir tölunnar). Um 170 terabæt af gögnum þurfti til útreikninganna og tók það sýndarvélarnar 25 alls 121 dag að ljúka verkinu.

Pí er skilgreint sem hlutfallið milli ummáls og þvermáls hrings. Fyrstu stafir tölunnar eru einmitt 3,14 en vitað er að aukastafirnir eru óendanlega margir og fylgja engu mynstri. Pí er með mikilvægustu föstum stærðfræðinnar enda kemur hún fyrir í hinum ýmsu formúlum sem hafa með flatar- og rúmmál að gera, auk þess að skjóta upp kollinum á ólíklegustu stöðum.

Pí-mósaík fyrir utan Tækniháskólann í Berlín.
Pí-mósaík fyrir utan Tækniháskólann í Berlín. Ljósmynd/Holger Motzaku/Wikipedia

Leitin að fleiri aukastöfum tölunnar pí er klassísk dægradvöl stærðfræðinga, en Emma Iwao segist hafa verið heilluð af tölunni síðan hún var barn.

„Ég er mjög hissa,“ sagði Iwao í samtali við BBC, og bætir við að hún sé enn að reyna að átta sig á afrekinu. Þá vonist hún til að geta haldið áfram. „Pí tekur engan enda, og ég vildi gjarnan reyna að ná fleiri aukastöfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert