Svartur dagur í sögu Facebook

AFP

Samfélagsmiðlar í eigu Facebook áttu erfiðan dag í gær og sennilega þann svartasta í sögu fyrirtækisins þar sem fólk alls staðar í heiminum lenti í vandræðum með að setja inn færslur. 

Síðast þegar viðlíka röskun varð á starfsemi Facebook voru notendurnir 150 milljónir talsins (árið 2008) en nú eru þeir 2,3 milljarðar talsins. 

Bilunin hafði áhrif á Facebook, Instagram auk tveggja skilaboða-smáforrita (Messenger og What'sApp. Ekki hefur verið upplýst hvað olli biluninni en svo virðist sem miðlarnir séu allir farnir að virka eðlilega að nýju.

Vegna orðróms á samfélagsmiðlum um að svokallaðar DDoS-árásir væri að ræða (Distributed Denial of Service) svaraði Facebook því til að svo væri ekki. Talið er að erfiðleikarnir hafi byrjað að herja á samfélagsmiðlana um klukkan 16 í gær og þrátt fyrir að fólk hafi komist inn á Facebook var ekki hægt að setja inn færslur. 

Þeir sem eru á Instagram gátu ekki endurnýjað né heldur sett inn nýtt efni. Facebook Messenger hlóð sig ekki en í einhverjum tilvikum var hægt að senda skilaboð en ekki myndir. Svipað var með WhatsApp.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina