Hefja rannsókn á hrjótandi börnum

Dr. Erna Sif Arnardóttir, rannsóknasérfræðingur við HR og Landspítala, leiðir …
Dr. Erna Sif Arnardóttir, rannsóknasérfræðingur við HR og Landspítala, leiðir rannsóknina. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýrri samnorrænni rannsókn sem snýr að hrotum og kæfisvefni barna var ýtt úr vör í dag, á alþjóðadegi svefns. Viðfangsefni rannsóknarinnar er það, sem fram hefur komið í erlendum rannsóknum, að börn sem hrjóti eða hætti að anda í svefni séu líklegri til þess að sýna einkenni athyglisbrests og ofvirkni, auk þess sem að andleg líðan þeirra sé verri en þeirra barna sem ekki þjást af slíkum svefnvandamálum.

„Aðalmarkmið rannsóknarinnar er að hanna og staðfesta gildi nýrra mælikvarða til að geta sagt til um hvenær börn þurfa aðstoð vegna sjúkdómsástands í svefni og hvenær ekki,“ segir Erna Sif Arnarsdóttir, rannsóknasérfræðingur við HR og Landspítala, sem leiðir rannsóknina.

„Þær rannsóknir sem liggja fyrir benda til þess að 1-5% íslenskra barna þjáist af kæfisvefni og enn fleiri af miklum reglubundnum hrotum sem geta haft áhrif á heilsu þeirra,“ segir Erna Sif, sem ræddi um rannsóknina við Morgunblaðið fyrir mánuði síðan.

„Þetta er einstakt tækifæri, því þetta er hópur af börnum sem hefur verið fylgt eftir frá fæðingu,“ segir Erna Sif í samtali við mbl.is. Rannsakendur vonast eftir því að um 160 börn sem fædd eru á milli 2005 og 2010 muni taka þátt í rannsókninni, en þau eru valin úr hópi yfir 1.000 barna sem Sigurveig Þ. Sigurðardóttir og Michael V. Clausen barnalæknar hafa fylgt eftir frá fæðingu í fæðuofnæmisrannsóknum.

„Við munum bjóða öllum börnum úr þeirri rannsókn sem sögðust hrjóta að minnsta kosti þrisvar í viku eða hættu að anda í svefni að fá mat á svefnháðum öndunartruflunum og mögulegum afleiðingum þeirra fyrir andlegan og líkamlegan þroska, m.a. vitsmunagetu og samræmdra skólaeinkunna,“ segir Erna Sif, en einnig verður samanburðarhópi sem ekki hrýtur boðið að taka þátt í rannsókninni.

Íslenska svefnrannsóknarfyrirtækið Nox Medical er samstarfsaðili að rannsókninni en fyrirtækið leggur til allan tækjabúnað til mælinganna, samkvæmt því sem fram kemur í fréttatilkynningu.

„Það er okkur sönn ánægja að taka þátt í mikilvægri rannsókn sem þessari enda hefur eitt af megin markmiðum Nox Medical frá stofnun verið að hanna lausnir til að rannsaka og greina svefnvandamál barna,“ segir Pétur Már Halldórsson, framkvæmdastjóri Nox Medical, í fréttatilkynningu.

Rannsóknin er ný samnorræn rannsókn þar sem Finnland og Noregur koma að borðinu. Rannsóknin er studd fjárhagslega af NordForsk og Rannís ásamt Nox Medical.

mbl.is