Námu sprengingu yfir Beringssundi

Lofsteinn brennur upp yfir Ástralíu árið 2011.
Lofsteinn brennur upp yfir Ástralíu árið 2011. Wikimedia Commons/C.M. Handler

Gríðarstór loftsteinn splundraðist yfir Beringssundi, undan austurströnd Rússlands, í desembermánuði, samkvæmt upplýsingum frá NASA. Sprengingin sem varð er loftsteinninn splundraðist við komuna inn í andrúmsloft jarðar var sú næstöflugasta af þessum sökum síðustu 30 árin og leysti úr læðingi afl sem var á við tíu kjarnorkusprengjur á borð við þá sem sprengd var í Hírósíma í síðari heimsstyrjöld, samkvæmt frétt BBC af málinu.

Rúm sex ár eru nú liðin frá því enn stærri loftsteinn kom inn í andrúmsloft jarðarinnar yfir Úral-fjöllum í Rússlandi og var kraftur sprengingarinnar yfir Beringssundi í desember einungis um 40% af því afli sem þar losnaði úr læðingi. Hátt í 1.000 manns slösuðust þá vegna höggbylgjunnar sem myndaðist þegar loftsteinadrífan skall á jörðinni nærri borginni Chelyabinsk og olli miklum skemmdum.

Lindlay Johnson, sérfræðingur hjá NASA, segir við BBC að einungis megi búast við vígahnöttum af þessari stærð um það bil tvisvar eða þrisvar á hverri öld, en gervihnettir Bandaríkjahers námu sprenginguna 18. desember síðastliðinn og lét herinn NASA vita í kjölfarið.

Loftsteinninn splundraðist í 25,6 kílómetra hæð yfir jörðu og vakti ekki athygli er hann kom inn í andrúmsloftið, þar sem hann splundraðist yfir afskekktu hafsvæði, en Johnson segir rannsakendur vera að kanna hvort flugmenn sem voru í loftinu á þessum slóðum hafi orðið varir við vígahnöttinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert