San Francisco íhugar rafrettubann

Gagnrýnendur fyrirhugaðrar löggjafar í San Francisco segja að bann við …
Gagnrýnendur fyrirhugaðrar löggjafar í San Francisco segja að bann við rafrettum muni gera þeim, sem eru að reyna að takast á við nikótínfíkn, erfiðara fyrir. AFP

Borgaryfirvöld í San Francisco í Kaliforníuríki Bandaríkjanna skoða nú að banna sölu rafsígarettna í borginni þar til heilbrigðisyfirvöld Bandaríkjanna hafa metið áhrif þeirra á heilsu fólks með fullnægjandi hætti.

Ef ný borgarlög þessa efnis verða samþykkt af borgaryfirvöldum verður San Francisco fyrsta borgin vestanhafs til þess að reyna að stemma stigu við „veipinu“ á meðal yngra fólks, samkvæmt frétt BBC um málið.

Samkvæmt tölum úr opinberum mælingum í Bandaríkjunum jókst fjöldi unglinga sem sögðust hafa notað tóbak „á síðustu 30 dögum“ um 36% á milli áranna 2017 og 2018, úr 3,6 milljónum upp í 4,9 milljónir.

Forvarnastofnunin US Centers for Disease Control and Prevention rekur þessa aukningu til þess hversu margir eru farnir að sjúga rafrettur og það er gjarnan gagnrýnt að spennandi bragðtegundir höfði sérstaklega til þeirra sem yngri eru.

Matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnun Bandaríkjanna (FDA) hefur gefið fyrirtækjum frest til ársins 2021 til þess að láta meta rafsígarettur sínar. Dennis Herrera, borgarlögmaður í San Francisco, segir að slíkt mat ætti að fara fram áður en rafrettur séu seldar.

„Þessi fyrirtæki fela sig á bak við skaðaminnkun, en við skulum hafa það á hreinu, varan þeirra er fíkn,“ hefur BBC eftir Herrera.

Gagnrýnendur fyrirhugaðrar löggjafar í San Francisco segja einmitt, að bann við rafrettum muni gera þeim, sem eru að reyna að takast á við nikótínfíkn, erfiðara fyrir.

mbl.is