Nokia-símar sendu gögn til Kína

Í kjölfar rannsóknar NRK voru finnsk netöryggisyfirvöld látin vita og …
Í kjölfar rannsóknar NRK voru finnsk netöryggisyfirvöld látin vita og hafa þau nú hafið sína eigin rannsókn. AFP

Fjöldi farsíma af gerðinni Nokia 7 Plus hefur mánuðum saman sent persónugreinanleg gögn norskra eigenda sinna, og mögulega eigenda í fleiri löndum, til vefþjóns sem staðsettur er í Kína.

NRK hóf rannsókn á málinu eftir að hafa fengið ábendingu frá lesanda sem hafði tekið eftir því að síminn hans tengdist reglulega óþekktum vefþjóni og sendi þangað ódulkóðuð gögn um staðsetningu símans, SIM-kortanúmerið og raðnúmer símans í hvert sinn sem kveikt var á símanum, skjá hans eða honum aflæst.

Í kjölfar rannsóknar NRK voru finnsk netöryggisyfirvöld látin vita og hafa þau nú hafið sína eigin rannsókn vegna málsins, að því er segir í frétt NRK.

Fátt hefur verið um svör frá HDM Global, eiganda Nokia, við fyrirspurnum NRK vegna málsins, en það sem þykir öruggt í þessu máli er að umræddur eiginleiki Nokia 7 Plus farsímanna átti einungis að vera til staðar í þeim farsímum sem seldir eru í Kína, þar sem farsíminn nýtur gríðarlegra vinsælda.

Farsíminn kom á markað snemma árs 2018 og seldust 250 þúsund eintök upp á aðeins fjórum mínútum í Kína. HDM Global hefur staðfest við NRK að eiginleikanum hafi verið eytt í nýjustu uppfærslu farsímanna og að langflestir eigendur farsímans hafi þegar sótt uppfærsluna.

Ítarleg umfjöllun NRK um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert